Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra segir að ef verkalýðshreyfingunni takist að knýja fram niðurstöðu á vinnumarkaði í samræmi við þá kröfugerð sem lögð hefur verið fyrir, verði afleiðingarnar mjög fyrirséðar.
„Hækki laun langt umfram framleiðniaukningu fáum við verðbólgu, hærra vaxtastig og rýrnun kaupmáttar,“ segir ráðherrann í samtali sem birtist í nýútkominni bók Frjálsrar verslunar, sem ber heitið 300 stærstu.
Hann segir að einnig liggi fyrir hvað gerist í framhaldi af því:
„Stórir hópar munu kenna gjaldmiðlinum um allt saman, krefjast endurskoðunar á vísitölum eða breytinga á verðtryggingu, bölva Seðlabankanum og sparka í krónuna. Og þá hefst sú umræða enn á ný. Sem aldrei er um kjarna máls.“
Hann segir að þetta sýni vel að íslenska vinnumarkaðsmódelið sé ónýtt. Hann hafi sjaldan séð það jafn skýrt og nú. Ekki sé samstaða um að kanna fyrst hvort svigrúm sé til launahækkana og þá hversu mikið. Engar samræður séu um það og hver byrjunarflöturinn geti verið.
Þegar rætt sé um að kostnaðarmeta þurfi kröfur, sé því svarað með útúrsnúningi um að ekki sé hægt að éta kostnaðarmat.