Fyrirhugað er að bjóða út fyrstu framkvæmdir vegna Fossvogsbrúar, sem skilgreind hefur verið sem hluti af fyrsta áfanga fyrirhugaðrar borgarlínu, nú á haustmánuðum. Fyrst verður boðin út vinna við landfyllingar á Kársnesi og við Nauthólsvík vegna brúarinnar. Áætlanir gera ráð fyrir að vinna við landfyllingar hefjist fyrir áramót og taki um átta mánuði. Í framhaldinu verða framkvæmdir vegna smíði brúarinnar boðnar út og ættu þær að geta hafist um mitt næsta ár.
Á sama tíma hefur Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra sett fram stóran fyrirvara um borgarlínuverkefnið í heild sinni og sagt beinum orðum að forsendur fyrir samgöngusáttmála milli ríkis og sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu væru brostnar.
Fossvogsbrúin verður mikið mannvirki þótt hún sé ekki ætluð einkabílnum. Brúin er ætluð fyrir gangandi og hjólandi vegfarendur, sem og farþega almenningssamgangna en á brúnni verður sérrein fyrir borgarlínuvagna. Leið gangandi og hjólandi vegfarenda milli Reykjavíkur og Kópavogs styttist um 1,2 km með tilkomu brúarinnar, auk þess sem hún tengir miðbæ Kópavogs betur við Háskólann í Reykjavík, Háskóla Íslands og miðbæ Reykjavíkur. Brúin verður 270 metra löng og allt að 17,3 metrar á breidd.
Undirbúningur fyrir framkvæmdir hafinn
„Hönnun brúarinnar er nú á lokastigum og áformað er að fullnaðarhönnun ljúki um næstu áramót. Undirbúningur fyrir framkvæmdirnar er þegar hafinn og hafa Veitur fært háspennusæstreng sinn vegna fyrirhugaðrar legu brúarinnar og í sumar voru gerðar rannsóknir á sjávarbotni brúarstæðisins.
Samhliða útboðinu hefur verið gerð kostnaðaráætlun þar sem kostnaðurinn vegna hönnunar, framkvæmda, umsjónar og eftirlits er metinn á um 6,1 milljarð. Þá gerir kostnaðaráætlun ráð fyrir um 1,4 milljörðum vegna landfyllinga. Um 1,4 milljarðar króna sparast með því að nota hefðbundið stál í stað ryðfrís stáls við byggingu brúarinnar eins áður hafði verið gert ráð fyrir, en um 1 milljarður á líftíma brúarinnar.
Í kostnaðaráætlun eru almennar verðhækkanir teknar með í reikninginn og markaðsverð á stáli og steypu sem eru aðalbyggingarefni brúarinnar, sem hefur hækkað mikið á hönnunartímanum. Kostnaður við landfyllingar ræðst af aðstæðum á markaði og einnig vegna þeirra niðurstaðna sem fengust úr sjávarbotnsrannsóknum,“ segir á vef Reykjavíkurborgar.
Fossvogsbrú heitir Alda
Haldin var opin hönnunarsamkeppni um útlit og hönnun brúar yfir Fossvog í byrjun árs 2021 og úrslit kynnt í desember það sama ár. Sigurtillagan heitir Alda og er samstarfsverkefni EFLU og BEAM Architects. Í umsögn dómnefndar um sigurtillöguna segir að mannvirkið sé látlaust en jafnframt kröftugt, brúin falli áreynslulaust að umhverfinu og mjúk bylgjulögun hennar sé áhugaverð skírskotun í öldur hafsins. Léttleiki brúarinnar keppi ekki við náttúrulegt umhverfi hennar og skapi fallega sýn fyrir vegfarendur á sjóndeildarhringinn beggja vegna vogarins.
Fossvogsbrú er hluti af verkefnum sem heyra undir Samgöngusáttmála höfuðborgarsvæðisins sem gerður var milli ríkisins og sveitarfélaganna sex á höfuðborgarsvæðinu árið 2019. Betri samgöngur ohf., Vegagerðin, Reykjavíkurborg og Kópavogsbær vinna saman að undirbúningi brúarinnar.