Heimilt er að hafa allt að 50 viðskiptavini í einu inni í lyfja- og matvöruverslunum og allt að 10 viðskiptavini samtímis í öðrum verslunum, að því gefnu að hægt sé að hafa a.m.k. 2 metra á milli einstaklinga sem ekki eru í nánum tengslum. Um starfsmenn í þessum verslunum gildir að þeir mega ekki vera fleiri en 10 í sama rými og samgangur á milli rýma starfsmanna er óheimill. Öllum er skylt að bera andlitsgrímu í verslunum.
Heilbrigðisráðherra hefur samþykkt breytingu á reglugerð um takmarkanir á samkomum þar sem fjöldatakmörk í verslunum eru skýrð, að því er fram kemur á vef ráðuneytisins.
Með reglugerð ráðherra eru tekin af tvímæli um að fjöldatakmarkanir í verslunum séu bundnar við fjölda viðskiptavina, óháð fjölda starfsfólks. Að öðru leyti gilda ákvæði um fjöldatakmarkanir hvað varðar aðra starfsemi óbreytt, samkvæmt reglugerð um takmörkun á samkomum vegna farsóttar.