Fjölgar í Fríkirkjunni í Hafnarfirði: Ekki minni áhugi á skírnum

Fríkirkjan í Hafnarfirði.

Fjölgað hefur jafnt og þétt í söfnuði Fríkirkjunnar í Hafnarfirði undanfarin ár. Söfnuðurinn telur nú tæplega 7 þúsund og fjölgar ár frá ári, síðast þegar talið var nam fjölgunin um 170 manns.

Þetta segir Einar Sveinbjörnsson veðurfræðingur og formaður safnaðarstjórnar Fríkirkjunnar í Hafnarfirði.  Hann segir ekki aðeins um Hafnfirðinga að ræða heldur komi fólk víða að.

Karl Sigurbjörnsson, fv. biskup Íslands, hefur lýst áhyggjum af því að færri foreldrar láti skíra börn sín en áður, en Einar segir fríkirkjusöfnuðinn ekki hafa orðið varann við minnkandi áhuga. Sjá frétt Viljans um það fyrr í dag.

„Starfið er blómlegt og Fríkirkjan nýtur velvildar í sínu umhverfi.  Safnaðarvitund er rík og sjálfboðaliðar fjölmargir sem leggja starfinu lið.  Síðast en ekki síst er kirkjan vel sótt.  Tónlistarlífið er öflugt, aðeins aðrar áherslur eins og þar segir og frábær kirkjukór,“ segir hann.

Einar Sveinbjörnsson.

„Prestarnir tveir eru á þönum frá morgni til kvölds við m.a. sálgæslu, útfarir og fermingarfræðslu næst stærsta fermingarhóps einstakrar kirkju hér á landi.  Skipta þarf hópnum í fernt og trúlega verða fermingarathafnir 10 í vor líkt og í fyrra,“ bætir hann við í samtali við Viljann í dag.

„Við könnumst ekki við minni áhuga eða tískisveiflur í skírnum og verðum ekki vör við minni áhuga foreldra á að færa börn sín til skírnar.  Í fyrra voru 140 börn skírð af prestum Fríkirkjunnar í Hafnarfirði, þeim Sigríði Kristínu Helgadóttur og Einari Eyjólfssyni.  Stefnir í svipað í ár og til að mynda skírir Sigríður fimm börn um næstu helgi,“ segir Einar Sveinbjörnsson.