„Frumvarpið um stuðning við einkarekna fjölmiðla markar tímamót fyrir rekstrarumhverfi fjölmiðla á Íslandi. Fyrir liggur að Ísland er eina Norðurlandið sem ekki styður við rekstur einkarekinna fjölmiðla. Það hefur legið fyrir í talsverðan tíma í hvaða aðgerðir ætti að ráðast í til að bæta stöðu einkarekinna fjölmiðla og ég er ánægð með að við séum búin að kynna fyrsta áfangann á þeirri vegferð,“ sagði Lilja D. Alfreðsdóttir menntamálaráðherra á opnum fundi Framsóknarflokksins á Hótel Sögu í gærkvöldi.
Lilja var frummælandi á fundinum ásamt Willum Þór Þórssyni, formanni fjárlaganefndar. Fór hún meðal annars yfir Hvítbók um fjármálakerfið og stöðu bankamála á Íslandi.
„Sú mikla hækkun sem hefur átt sér stað á launum bankastjóra Landsbankans er óásættanleg og sýnir að hlutaðeigandi hafa ekki skilning á mikilvægi stöðuleika á vinnumarkaði og hefði ég talið að bankaráð Landsbankans hefði átt sýna betri dómgreind og skilning á stöðu efnahagsmála,“ sagði hún.
Við þurfum ekkert að flýta okkur í þessum efnum — aðalatriðið er að eigandinn sé traustur.
Sagði hún það sína skoðun, að traustir eigendur skipti meira máli en hraði söluferlisins og nákvæmlega sú upphæð sem gæti fengist fyrir hlut ríkisins í bönkunum.
„Við þurfum ekkert að flýta okkur í þessum efnum — aðalatriðið er að eigandinn sé traustur. Hafa ber í huga að ríkið hefur nú þegar minnkað eignarhlut sinn í fjármálakerfinu með sölu á hlut ríkisins í Arion banka,“ bætti hún við.
„Það hefur lengi verið skoðun mín að sameina eigi Seðlabanka Íslands og Fjármálaeftirlitið sem er nú fyrirhuguð og sú vinna gengur vel. Fyrir utan aukna hagkvæmni í rekstri yrðu mikil samlegðaráhrif fólgin í því að hafa eina öfluga alhliðastofnun sem færi með eftirlit á fjármálamarkaði, gengisstöðuleika, verðbólgumarkmiðum og fleira.“
Stærsta áskorunin nýliðun kennara
Lilja fór einnig yfir áskoranir og árangur sem náðst hefur í menntamálum á kjörtímabilinu og nefndi þar einkum tvö atriði:
„Stærsta áskorun menntakerfisins snýr að nýliðun kennara. Það liggur fyrir að það muni vanta um 2.000 kennara árið 2035 verði ekkert að gert. Umfangsmikil vinna hefur átt sér stað til þess til þess að snúa vörn í sókn á þessu sviði og sú vinna hefur gengið vel. Við erum farin að sjá jákvæð teikn á lofti en umsóknum um kennaranám fjölgaði um rúmlega 50% milli ára í Háskólanum á Akureyri og um 16% í Háskóla Íslands.
Önnur stór áskorun sem er brýnt að takast er að fjölga nemendum í iðn-, verk-, og starfsnámi. Við höfum lagt áherslu á að forgangsraða í þá veru með ýmsum aðgerðum. Til að mynda afnámum við efnisgjöld sem var aðgerð upp á 300 m.kr, hækkað fjárframlög til framhaldsskólanna þar sem sérstök áhersla var lög á að hækka reikniflokka iðn-, verk- og starfsnáms, fjárfest í betri kennsluaðstöðu í verknámsskólum, unnið að innleiðingu rafrænnar ferilbókar og fært samræmt próf þar sem það stangaðist á við dagsetningu Íslandsmeistaramótsins í iðn- og verkgreinum. Við erum farin að sjá árangur af aðgerðum okkar en umsóknum um iðn-, verk- og starfsnám fjölgaði hlutfallslega um 33% milli ára,“ sagði menntamálaráðherra.