Flokkur fólksins með þingsályktunartillögu um afturköllun ESB-umsóknar

Inga Sæland./ Viljinn: Rúnar Gunnarsson.

„Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að draga til baka umsókn Íslands um aðild að Evrópusambandinu.“

Svona hefst þingsályktunartillaga sem Flokkur fólksins dreifði á Alþingi í dag. Flutningsmenn tillögunnar eru Inga Sæland og Guðmundur Ingi Kristinsson.

Í greinargerð með tillögunni segir að tillögur sama efnis hafi verið lagðar fram en ekki hlotið brautargengi. Þessi þingsályktunartillaga sé lögð fram til þess að tryggja að Ísland dragi til baka umsókn sína um aðild að Evrópusambandinu.

„Nú er liðinn áratugur frá því að Ísland sótti um að hefja aðildarviðræður um inngöngu í Evrópusambandið og nær sjö ár frá því að hlé var gert á aðildarviðræðum. Samninganefnd Íslands var leyst upp árið 2013 og vorið 2015 sendi þáverandi utanríkisráðherra bréf til formanns ráðherraráðs Evrópusambandsins og framkvæmdastjóra nágrannastefnu og aðildarviðræðna sambandsins þess efnis að ríkisstjórn Íslands hefði engin áform um að hefja aðildarviðræður að nýju og að ekki bæri að líta á Ísland sem umsóknarríki.“

Ákveðin óvissa ríki um stöðu aðildarumsóknar Íslands. Ekki sé ljóst hvort Evrópusambandið líti svo á að umsóknin hafi verið dregin til baka eða hvort sambandið hafi einungis fært Ísland af lista yfir umsóknarríki til málamynda en telji umsóknina enn fullgilda.