Flosi Eiríksson hefur verið ráðinn framkvæmdastjóri Starfsgreinasambands Íslands og mun hann taka til starfa á næstu vikum. Forveri Flosa í starfi, Drífa Snædal, tók við starfi forseta ASÍ fyrr í vetur.
Í tilkynningu frá Starfsgreinasambandinu segir að Flosi búi að víðtækri reynslu úr atvinnulífinu. Hann er húsasmiður og viðskiptafræðingur að mennt og undanfarin ár hefur hann starfað hjá Íslandsstofu við fræðslu og ráðgjöf. Áður starfaði hann m.a. hjá ráðgjafarfyrirtækinu KPMG um 10 ára skeið og sem húsasmiður hjá ýmsum aðilum.
Flosi var virkur í stjórnmálastarfi um langt skeið, fyrst fyrir Alþýðubandalagið og síðar Samfylkinguna. Hann var bæjarfulltrúi í Kópavogi í tólf ár og hefur setið í fjölmörgum nefndum fyrir sveitarfélög og hið opinbera.
Alls bárust 17 umsóknir um stöðuna og var ráðningarferlið í höndum Capacent.