Forbes gefur í skyn að Icelandair hafi vonast eftir falli Wow air

Vefur bandaríska viðskiptablaðsins Forbes gefur í skyn í úttekt sem birtist í gær um boðaða fjárfestingu Indigo Partners í Wow air, að forsvarsmenn Icelandair hafi vonast eftir því að Wow færi á hausinn. Þess í stað sé samkeppnisaðilinn kominn með gríðarlega öflugan bakhjarl og fjárfestar á íslenskum hlutabréfamarkaði hafi gefið til kynna í viðskiptum á fimmtudag og föstudag að vopnin hafi algjörlega snúist í höndunum á Icelandair.

Athygli vekur, að Skúli Mogensen, forstjóri Wow, hefur deilt frétt Forbes á fésbókarsíðu sinni. Fyrirsögn fréttarinnar er á þá leið að sá hlæi best sem síðast hlær og Icelandair sé nú í mótvindi eftir óvænta innkomu bandaríska fjárfestingarisans.

Forbes bendir á að markaðshlutdeild Wow hafi aukist jafnt og þétt á kostnað samkeppnisaðilans í Icelandair.  Icelandair hafi tilkynnt að hætt hefði verið við kaupin og gefið um leið í skyn að fjárhagsstöðu Wow væri ekki við bjargandi (essentially hinting that WOW’s financial problems were terminal) og álitsgjafar þess vegna dregið þá ályktun að dagar lággjaldaflugfélagsins væru taldir.

Aðgerð sem hefur sprungið rækilega í andlitið á þeim

„Að öllum líkindum hugsuðu sumir stjórnarmenn Icelandair sér gott til glóðarinnar að draga líflínuna að sér og horfa á samkeppnisaðilann sökkva niður vegna neikvæðrar umræðu í fjölmiðlum,“ segir í grein Forbes.

„En ef það voru væntingar þeirra, hefur sú aðgerð sprungið rækilega í andlitið á þeim,“ segir blaðamaður Forbes, því allt í einu hafi hvítur riddari birst á hesti þar sem voru Indigo Partners, sérfræðingum í fjárfestingum í alþjóðlegum flugrekstri, einkum lággjaldaflugfélögum.

Bendir blaðið á að bréf í Icelandair hafi hrunið í Kauphöllinni á fimmtudag og aftur í gær og krónan styrkst. Framtíðarhorfur Wow geti gjörbreyst til hins betra með Indigo Partnes sem bakhjarl. Ekki síst þar sem sérstaðan sé mikil, að geta boðið upp á styttra flug milli Evrópu og Bandaríkjanna.

Það er hugsanlegt að undanfarna daga hafi stjórn Icelandair byrjað að hafa áhyggjur af því að svo umfangsmiklar fjárfestingar væru of áhættusamar fyrir fyrirtækið. Væntanlega hefur stjórnin talið að laskað Wow ætti í erfiðleikum með að halda sér á floti. Ef svo er, lítur nú út fyrir að um alvarlegt vanmat hafi verið að ræða. Að því gefnu að áreiðanleikakönnun gangi eftir, er líklegt að Icelandair muni sjá eftir því að hafa misst af tækifærinu til að ná algjörri yfirburðastöðu í flugi á Íslandi en beina sjónum sínum þess í stað að tækifærum annars staðar, segir blaðið og á þar við fjárfestingar sem Icelandair er að ráðast í um þessar mundir á Grænhöfðaeyjum og skýrt hefur verið frá í fréttum síðustu daga.

Sjá einnig: Wow air tapaði 15 milljónum á dag fyrstu níu mánuði ársins