Leiðtogar Kína, Þýskalands, Frakklands og Evrópusambandsins hittust á fundi í París í gær, þriðjudaginn 26. mars. Fundinum er lýst sem „án fordæmis“ og snerist hann um þróun og stjórn heimsmála. Segir þýska fréttastofan Deutsche Welle að ESB-ríkin standi frammi fyrir þeirri áskorun hvernig þau ætli að viðhalda jafnvægi í samskiptunum við Kína sem verðist sífellt öflugra og áhrifameira um heim allan.
Angela Merkel Þýskalandskanslari, Emmanuel Macron Frakklandsforseti og Jean-Claude Juncker, forseti framkvæmdastjórnar ESB, tóku þátt í fundinum með Xi Jinping Kínaforseta.
Xi kom til Frakklands frá Monakó sunnudaginn 24. mars. Mánudaginn 25. mars var skrifað undir viðskiptasamninga milli Frakka og Kínverja sem taldir eru jafnvirði 40 milljarða evra, þar af eru 30 milljarðar vegna kaupa á Airbus-þotum. Kínverjar ætla að kaupa 290 Airbus A320 flugvélar og 10 A350 flugvélar frá evrópsku flugvélasmiðjunni Airbus.
Macron hvatti kínverska forsetann til að „virða einingu Evrópusambandsins og þau gildi sem í henni felst fyrir heiminn allan“.
Bæði Xi og Macron lögðu áherslu á ágæti fjölþjóðlegs samstarfs.
„ Við viljum stuðla að því að endurnýja fjölþjóðasamstarf. Okkur greinir á um ýmislegt, mannkynssagan sýnir að auðvitað er ekki unnt að útiloka keppni milli ríkja, enginn okkar heldur það í einfeldni sinni,“ sagði Macron.
Farsæl Evrópa fellur að sýn Kínverja á „fjölpóla heim“ sagði Xi og að ESB og Kína sæktu fram saman þrátt fyrir „tortryggni“.
Á blaðamannafundi voru allir þátttakendurnir fjórir sammála um nauðsyn þess að ESB og Kína ættu samstarf sín á milli. Macron þakkaði Xi fyrir stuðning hans við aðgerðir gegn loftslagsbreytingum.
Í máli allra kom fram að nauðsynlegt væri að gera endurbætur á Alþjóðaviðskiptastofnuninni (WTO). Hún ætti að svara betur kalli tímans og starfa á skipulegri hátt.
Angela Merkel sagði að ESB vildi „gegna hlutverki í silkileiðar-frumkvæðinu“ án þess að nefna einstök verkefni. Þá fylgdust menn innan ESB náið með viðskiptaviðræðum Kínverja og Bandaríkjamanna. Bæru þær ekki árangur hefði það áhrif á Þýskaland og ESB.
Af vardberg.is, birt með leyfi.