Formaður Eflingar henti kennslubók í hagfræði beint í ruslið

Myndin sem formaður Eflingar setti á fésbókarsíðu sína í dag.

Formaður verkalýðsfélagins Eflingar henti strax í ruslafötuna handbók um hagfræði, sem Félag frjálsra stúdenta færði henni að gjöf.

Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Eflingar, skýrir sjálf frá þessu á fésbókarsíðu sinni og birtir mynd með af bókinni í ruslafötunni.

Hagfræði í hnotskurn er þekkt grundvallarrit í hagfræði og kom út fyrir nokkrum árum á íslensku í þýðingu Haraldar Johannessen hagfræðings og ritstjóra Morgunblaðsins. Bókin, sem heitir Economics in One Lesson á ensku er eftir Henry Hazlitt. Hún kom fyrst út árið 1946 og varð strax mjög vinsæl og er orðið sígilt verk um grundvallaratriði í hagfræði.

„Semsagt; fyrsta flokks Homo Economicus, svo æstur í að reikna út tilveruna að hann nennti að telja öll orðin sín. It takes all kinds, I guess. Hann hataði velferðakerfi og réðst stöðugt á New Deal Roosevelt, af sannri prinsippmennsku; það er betra að láta vesalingana drepast úr atvinnuleysi og hungri en að leyfa ríkinu að redda einhverju eftir að kapítalistar eru búnir að rústa samfélaginu. Því hvernig öðruvísi á vinnuaflið að læra að hegða sér ef við sameinumst ekki í að pína það og kremja?

Sólveig Anna Jónsdóttir formaður Eflingar / Mynd: Sósíalistaflokkurinn.

Frjálsir stúdentar sem væntanlega verða bráðum okkar nýju Overlords, innblásnir af mennskum reiknivélum og æstir í að kenna vinnuaflinu nýjar og betri lexíur, mega svosem alveg halda áfram að færa mér pakka í vinnuna.

En ég (í anda jólanna?) er að pæla í að færa þeim þessa uppástungu, með kveðju; Prófiði að vinna í 10 ár sem láglaunakona á íslenskum útsölu-vinnumarkaði, prófiði að eiga vinkonur sem þurfa að vera í tveimur vinnum til að geta borgað húsaleigina, prófiði að eiga vinkonur sem þurfa að vera í þremur vinnum til að geta tryggt afkvæmum sínum öruggt þak yfir höfuðið, prófiði að skoða launaseðla fólks sem lendir í klónum á gróðasjúkum kapítalistum, prófiði að tala við fólk sem hefur unnið alla ævi og getur ekki hætt, þrátt fyrir að vera orðið sjötugt, vegna eigna og allsleysis, prófiði að lifa og starfa sem verka og láglaunamanneskjur og þegar þið eruð búnir að prófa það; tja, þá getum við kannski rætt um frelsið í sínum víðasta skilningi,“ segir formaður Eflingar ennfremur.

Hér má lesa inngang bókarinnar Hagfræði í hnotskurn.