Formaður þroskaþjálfa virk í Samfylkingunni: Framganga hennar sögð úr öllu hófi

Laufey Elísabet Gissurardóttir.

Kristinn H. Gunnarsson, fv. alþingismaður og nú ritstjóri Bæjarins besta á Ísafirði, segir að framganga formanns Félags þroskaþjálfa gagnvart Önnu Kolbrúnu Árnadóttur, þingmanni Miðflokksins, hafi verið úr öllu hófi og einkennst af refsigleði og löngun til að sparka í liggjandi mann.

Laufey Elísabet er virkur félagi í Samfylkingunni og sat á framboðslista flokksins fyrir síðustu bæjarstjórnarkosningar á Seltjarnarnesi. Hún sendi frá sér yfirlýsingu í gær, þar sem misnotkun þingmannsins á starfsheitinu var hörmuð og tilgreint hvaða refsiheimildir lægu við brotum af slíku tagi, jafnvel fangelsi allt að þremur árum.

„Þetta var óþarflega mikill vilji hjá formanni Þroskaþjálfarafélagsins til þess að sparka í liggjandi mann. Sjálfsagt að fara fram á lagfæringu á skráningu, en að kæra til Landlæknisembættisins og senda svo fjölmiðlum tilkynningu með áminningu um lögbrot sem varði fangelsi er framganga úr öllu hófi.

Kristinn H. Gunnarsson ritstjóri og fv. alþingismaður.

Það er full ástæða til þess að brýna fyrir fólki að sína stillingu í opinberri umræðu,“ segir Kristinn H. á fésbókarsíðu sinni og bendir á að forseti Alþingis hafi nú skýrt frá því að þingmaðurinn hafi skýrt rétt frá menntun sinni, en skrifstofa þingsins gert mistök við skráningu.

„Nú hefur forseti Alþingis skýrt frá því að þingmaðurinn hafi gefið réttar upplýsingar. Hvað ætlar þessi refsiglaði formaður að gera nú?“ spyr Kristinn.

Í tilkynningu sem Þroskaþjálfafélag Íslands sendi frá sér í gær var sagt að Anna Kolbrún hefði ranglega kallað sig þroskaþjálfa á vef Alþingis. 

„Þroskaþjálfafélagið harmar að starfsheitið þroskaþjálfi hafi verið misnotað með þessum hætti enda þótt starfsheitið sé ekki lengur að finna í æviágripi þingmannsins. Félagið hefur þegar tilkynnt brotið til Landlæknisembættisins sem er eftirlitsaðili samkvæmt lögum um heilbrigðistarfsmenn.

Anna Kolbrún Árnadóttir alþingismaður.

Í lögunum kemur fram að þeim sem ekki hefur gilt leyfi landlæknis er óheimilt að nota löggilt starfsheiti eða starfa sem heilbrigðisstarfsmaður. Brot gegn ákvæðum laga um heilbrigðisstarfsmenn og reglna sem settar eru á grundvelli þeirra varða sektum eða fangelsi allt að þremur árum,“ sagði í yfirlýsingu sem Laufey Elísabet sendi fjölmiðlum.