Forseti Alþingis minntist Helga Seljan f.v. alþingismanns

Helgi Seljan, f.v. alþingismaður, er látinn.

„Helgi var einkar vel látinn í hópi þingmanna fyrir sitt glaða skap, heiðarleika og hreinskiptni í samstarfi, svo og fyrir dugnað og alúð við þingstörfin. Hygg ég ekki ofmælt að hann hafi verið einn vinsælasti og vinflesti þingmaðurinn á sinni tíð og gekk þvert á flokksbönd. Það segir nokkuð um manninn sem við minnumst hér í þessum sal í dag.“

Þetta sagði Steingrímur J. Sigfússon, forseti Alþingis og þingmaður Vinstri grænna, er hann flutti minningarorð á þingfundi Alþingis um Helga Seljan, f.v. alþingismann, sem andaðist tæplega 86 ára gamall, þriðjudaginn 10. desember sl.

„Helgi Seljan Friðriksson var fæddur á Eskifirði 15. janúar 1934. Foreldrar hans voru Friðrik Árnason, verkamaður þar, og kona hans, Elínborg Kristín Þorláksdóttir húsmóðir. Aðeins nokkurra mánaða gamall var Helgi tekinn í fóstur hjá hjónunum Jóhanni Björnssyni, bónda í Seljateigi í Reyðarfirði, og konu hans, Jóhönnu Helgu Benediktsdóttir húsmóður, og ólst hann upp á þeim bæ og tók nafn sitt af því.

Skipaði sér ungur í raðir sósíalista

Helgi lauk kennaraprófi 19 ára gamall og gerðist þegar kennari á heimaslóðum fyrir austan, fyrst á Búðum í Fáskrúðsfirði í tvö ár, en færði sig síðan 1955 að barna- og unglingaskólanum á Búðareyri í Reyðarfirði. Hann var skipaður skólastjóri þar 1962 og gegndi því starfi þar til hann var kosinn á þing. 

Helgi Seljan skipaði sér ungur í raðir sósíalista, var í framboði þegar í alþingiskosningunum 1956 í Suður-Múlasýslu, aðeins 22 ára gamall, og var jafnan síðar ofarlega á lista Alþýðubandalagsins í Austurlandskjördæmi. Hann var hreppsnefndarmaður í Reyðarfirði í 12 ár. Helgi Seljan varð landskjörinn þingmaður 1971 eftir ágætan árangur flokks hans í kjördæminu það sumar og síðar kjördæmakjörinn þegar Alþýðubandalagið varð stærsti flokkurinn í Austurlandskjördæmi 1978. Helgi sóttist ekki eftir æðstu metorðum í flokki sínum þótt honum stæðu þau til boða heldur kaus fremur starf alþingismannsins.

Áfengisvarnir og bindindismál á meðal helstu áherslna

Helgi sat samfellt á Alþingi til 1987 er hann ákvað að sækjast ekki eftir endurkjöri. Hann sat jafnan í efri deild og var forseti hennar 1979–1983 en var jafnframt oft varaforseti þar og í sameinuðu Alþingi. Sæti varamanns tók Helgi tvívegis, fyrst í febrúar 1958 og í seinna sinn haustið 1969. Helgi var aldursforseti fyrrverandi þingmanna í þeim skilningi að lengst var liðið síðan hann hafði fyrst tekið sæti í þessum sal, tæp 62 ár, en raunar þá sem varamaður. Hann sat samtals á 20 löggjafarþingum.

Áfengisvarnir og bindindismál voru alla tíð eitt mesta baráttumál Helga. Þegar á skólaárum skipaði hann sér þar í forustusveit og vann þeirri hugsjón með fórnfúsu starfi og skrifum alla ævi.“