Hreyfing gulvestunga í Frakklandi hefur stofnað sjálfri sér í hættu, segir John Lichfield á vefsíðunni local.fr sunnudaginn 23. desember þegar hann lýsir framgöngu um 40.000 manns um allt Frakkland laugardaginn 22. desember. Þá efndu gulvestungar til mótmæla sjöttu helgina í röð. Þátttakan var aðeins svipur hjá sjón miðað það sem hún var í upphafi.
Lichfield segir að fólk forðist að tengjast hreyfingunni þegar hún sýni á sér dökku hliðina. Hópur mótmælenda í gulum vestum hafi til dæmis staðið á tröppunum upp að Basilique du Sacré Coeur í París og sungið lag og hermt eftir and-gyðinglega skemmtikraftinum Dieudonné sem er frægur fyrir dónalega framkomu.
Annar hópur gulvestunga móðgaði Gyðing sem lifði af Auschwitz með dónaskap í Paris Metro.
Lögregla á vélhjóli neyddist til að grípa til byssu sinnar til varnar sjálfum sér og tveimur félögum sínum þegar hópur gulvestunga réðst á þá með grimmilegu ofbeldi rétt utan við breiðgötuna Champs Elysées. Eftirmynd af Emmanuel Macron forseta var gerð höfðinu styttri í mótmælaaðgerðum gulvestunga í Charente. Þá hafa blaðamenn orðið fyrir áreitni og árásum.
Benjamin Griveaux, talsmaður ríkisstjórnarinnar, sagði að þessi atvik sýndu „eina andlit“ gulvestunga „hugleysi, rasisma, gyðingahatur, byltingarhvöt“. Lichfield segir þetta ekki rétt – gulvestungar hafi ekkert „eitt andlit“.
Hann telur almennt ekki unnt að kenna gulvestunga við rasisma eða gyðingahatur. Þeir kunni að hafa einfaldar stjórnmálaskoðanir en pólitísk hugmyndafræði knýi þá ekki til dáða.
Nú sé hins vegar hættan sú að þeir verði misnotaðir að herskáum minnihluta innan hreyfingarinnar. Hann verði sífellt sýnilegri og áhrifameiri eftir að þeim fækkar sem fara út á götur og torg til að mótmæla.
Þá kunni það að leiða til upplausnar hreyfingarinnar að aldrei voru valdir neinir í forystu fyrir henni og að samfélagsmiðlar voru helsti vettvangur hennar. Láti talsmenn hófsemdar í sér heyra á þessum miðlum eru þeir úthrópaðir af þeim sem eru öfgafyllri, jafnvel hótað með ofbeldi. Þar sem hreyfingin er andvíg „viðurkenndum fjölmiðlum“ er auðvelt að mata hana á samsæriskenningum og lygum þeirra sem eru lengst til hægri eða vinstri. Lichfield telur engan vafa á að Rússar standi að baki einhverju sem birtist á samfélagsmiðlum til að hafa áhrif á hreyfinguna.
Hann segir að gyðingahatur og öfga-hægrimennska hafi greinilega sett svip sinn á hreyfinguna frá upphafi. Dieudonné, margdæmdur fyrir gyðingahatur, var við hliðina á Mathieu Seurot, einum forráðamanna hreyfingarinnar í suðvestur Frakklandi, strax 19. nóvember en upphafsdagur mótmælanna er 17. nóvember. Í fyrri viku birtist mynd af mótmælanda við hringtorg í Suður-Frakklandi og hélt hann á spjaldi með stöfunum SS og áróðri gegn gyðingum og frímúrurum.
Öfgahópar til vinstri hafa einnig reynt að nýta sér hreyfinguna, þar á meðal flokkur Jean-Lucs Mélenchons sem heitir La France Insoumise.
Svo virðist sem hreyfingin sé að skiptast í tvennt, ef ekki fleiri arma. Einn hópur kallar sig Gilets Jaunes Libres, Frjálsir gulvestungar. Hann veltir fyrir sér framboði til ESB-þingsins í maí 2019. Einnig má nefna La France en Colére (Reitt Frakkland) sem hefur hrifist svo af eigin áróðri að hópurinn telur sig geta hrakið Emmanuel Macron úr embætti og leyst upp fimmta franska lýðveldið aðeins með götumótmælum.
Af vardberg.is –birt með leyfi.