Frambjóðandi treysti sér ekki til að ferðast með blaðakonu

#MeToo er tveggja ára nú í október. Ýmislegt hefur gengið á síðan hreyfingin fór af stað. Mynd/Wikipedia

Bandarískur frambjóðandi til ríkisstjóraembættis Mississippi í Bandaríkjunum treysti sér ekki til að leyfa blaðamanni Mississippi Today að fylgja sér í fimmtán tíma af kosningaherferð sinni. Ástæðan er sú að blaðamaðurinn er kona. Frá þessu greinir Washington Post.

Repúblikaninn Robert Foster, lofaði sjálfum sér og eiginkonunni, að forðast allar aðstæður þar sem flekkleysi hjónabands hans gæti verið dregið í efa. Af þeirri ástæðu treysti hann sér ekki til að hafa blaðamanninn, Larrison Campell, með í för, nema karlkyns kollegi hennar yrði einnig hafður meðferðis.

Íhaldssemi, karlremba eða ótti við #MeToo?

Blaðamaðurinn og ritstjóri hennar mótmæltu og sögðu ákvörðunina vera mismunun sem kæmi í veg fyrir að hún gæti klárað að vinna verkefni sitt, sem er að fjalla um frambjóðendur Repúblikanaflokksins til embættis ríkisstjóra. Foster og samstarfsfólk hans stendur fast á sínu og segir að það sem „sýnist“ skipti kosningabaráttu hans miklu máli. Einhver gæti náð óheppilegri mynd af honum við þær aðstæður að kona væri með honum í för, sem gæti stefnt mögulegum kosningasigri hans í hættu.

Málið hefur vakið athygli þar sem sumir halda því fram að þarna sé um að ræða kristilega íhaldsemi Repúblikanaflokksins, eða hefðbundinn „karlaklúbb“ stjórnmálablaðamennsku. Aðrir vilja meina að frambjóðandinn sé einfaldlega að gera varúðarráðstafanir til að eiga ekki á hættu lenda í hakkavél #MeToo umræðunnar.