Fremur misskilningur en hræðsluáróður um þriðja orkupakka ESB

Þórdís Reykfjörð Gylfadóttir, ráðherra atvinnu- og nýsköpunarmála.

Iðnaðarráðherra kveðst deila þeirri skoðun margra að ESB hafi stundum gengið nærri því valdaframsali sem við féllumst á með EES-samningnum, þ.e.a.s. tveggja stoða kerfinu.

„Við verðum að vera á varðbergi gagnvart því, því að enginn annar mun gera það fyrir okkur,“ segir hún í grein sem birtist á heimasíðu Sjálfstæðisflokksins, þar sem hún svarar fyrir fyrirhugaða innleiðingu hins svokallaða orkupakka þrjú hjá Evrópusambandinu.

Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir segir að gagnrýnin á innleiðinguna feli það í sér að Gunnar Bragi Sveinsson fv. utanríkisráðherra hafi brugðist í hagsmunagæslu fyrir Ísland á þeim upphafsstigum málsins þegar bestu tækifærin voru fyrir hendi til að hafa áhrif á það.

„Því hefur verið haldið fram að þriðji orkupakkinn feli í sér afsal á forræði yfir auðlindinni. Hið rétta er að hann varðar ekki á nokkurn hátt eignarrétt á orkuauðlindum né hvort þær séu nýttar og í hvaða tilgangi.

Því hefur verið haldið fram að forræði yfir orkumarkaði verði fært til stofnana Evrópusambandsins. Hið rétta er að engin ákvarðanataka gagnvart Íslandi verður færð til stofnana ESB, enda væri það ekki tveggja stoða lausn.

Stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd Alþingis komst að þeirri niðurstöðu árið 2014 að innleiðingin „feli í sér framsal sem sé vel afmarkað, á takmörkuðu sviði og fyrisjáanlega ekki verulega íþyngjandi fyrir íslenska aðila“. Utanríkismálanefnd komst að þeirri niðurstöðu árið 2016 að „sú aðlögun sem samið hefur verið um byggir á tveggja stoða kerfi EES-samningsins og er sambærileg því sem samið er um vegna gerða um evrópskt fjármálaeftirlitskerfi“.

Stærsti misskilningurinn

Því hefur verið haldið fram að innleiðingin valdi því að EES-reglur (fjórfrelsið) muni gilda um orkumarkaðinn og þess vegna verði Íslendingar neyddir til að skipta upp Landsvirkjun, einkavæða búta úr henni, jafnvel selja þá til erlendra aðila, auk þess sem markaðslögmálin muni auka líkur á orkuskorti. Fyrirlestrar og blaðagreinar um þessi meintu ósköp hafa ruglað marga í ríminu.

Ekkert af þessu er rétt. Fjórfrelsið gildir nú þegar um íslenska raforkumarkaðinn og því eru allar þessar ályktanir úr lausu lofti gripnar. Markaðsvæðing raforku á grundvelli innri markaðar ESB er nú þegar staðreynd á Íslandi og er með öllu óháð þriðja orkupakkanum.

Sæstrengur – og garðyrkjan

Því hefur verið haldið fram að innleiðingin feli í sér að Íslendingar verði neyddir til að samþykkja sæstreng. Hið rétta er að málið leggur engar skyldur á herðar Íslandi um neitt slíkt. Það er alveg skýrt að Íslendingar ráða því sjálfir hvaða stjórnvald veitir leyfi fyrir streng. Að halda öðru fram er fjarstæðukennt.

Þá hefur því verið haldið fram að garðyrkja muni leggjast af í núverandi mynd vegna þess að innleiðingin muni „án nokkurs vafa leiða til lagningar sæstrengs og hækkunar á raforkuverði“. En forsendan um sæstreng er röng, eins og hér hefur verið rakið.

Ég vil trúa því að hér búi misskilningur að baki fremur en hræðsluáróður,“ segir ráðherrann.