Fréttaskýring: Diplómatísk krísa Danmerkur og Bandaríkjanna

Bandaríkjaforseti er ekki þekktur fyrir lipurð í samskiptum.

Djúpstæður kvíði opinberast nú í Danmörku, eftir að Donald Trump, forseti Bandaríkjanna, hætti við heimsókn sína til landsins og fund með forsætisráðherranum, Mette Frederikssen, eins og hann sjálfur tilkynnti um með tísti í gær. Financial Times fjallar um málið í dag, og Viljinn byggir fréttaskýringuna lauslega á henni.

Aðdragandi málsins er að Trump lýsti í síðustu viku yfir áhuga á að kaupa Grænland, en því var fálega tekið af leiðtogum danskra og grænlenskra stjórnvalda, sem kváðu Grænland ekki vera til sölu. Frederikssen gekk svo langt að kalla hugmyndina „fáránlega“ (e. absurd), og fleiri danskir stjórnmálamenn hafa sameinast í hneykslan og látið hafa eftir sér að hugmyndin sé „vanvirðandi“, „yfirlætisleg“ og „afar móðgandi.“ Trump fannst viðbrögð Frederiksen vera hranaleg, og sagði að „svona talaði maður ekki við Bandaríkin.“ Rétt er að rifja upp að Bandaríkin hafa áður keypt land af Danmörku, en þau keyptu af þeim Vestur-Indíur árið 1917.

Fljótfærni í samskiptum leiðtoganna?

Mette Frederiksen, forsætisráðherra Danmerkur.

Segja mætti að leiðtogar beggja ríkjanna hafi þarna sýnt fljótfærni og skort á diplómatískum hæfileikum. Trump hefur lengi verið þekktur fyrir eitthvað annað en lagni í samskiptum. En Frederiksen, sem hefur verið forsætisráðherra Danmerkur í tvo mánuði, gæti hafa glatað tækifæri til að sýna stjórnkænsku í tilsvörum. Nú verði þau að finna einhverja leið til að eiga við þá stöðu sem komin er upp, en löndin hafa til þessa verið góðir bandamenn. Undirbúningur dönsku krúnunnar vegna komu Bandaríkjaforseta til Danmerkur var til að mynda langt kominn, að því er danskir fjölmiðlar hafa greint frá í dag. Danskur embættismaður lét hafa eftir sér: „Þetta er grátbroslegt, þar sem lengi hefur verið vonast eftir meiri áhuga beggja ríkjanna á málefnum Norðurslóða, og svo gera þau þetta.“

Bandaríkjaforseti hefur síðan haldið áfram að gagnrýna Danmörku á twitter í dag vegna fjárframlaga til NATO, sem séu of lág, eða aðeins 1,35% þegar að miðað sé við 2%, á meðan Frederiksen hafnar ásökunum hans um hranaleg viðbrögð og vonast eftir áframhaldandi góðum samskiptum ríkjanna þrátt fyrir að Trump sé hættur við heimsóknina.

Danir í vandræðum með Grænland

Áhugi Bandaríkjanna á Grænlandi hefur hingað til ekki verið tekinn alvarlega í Danmörku. En prófessor í alþjóðastjórnmálum hjá Royal Holloway í London, Klaus Dodds, lét hafa eftir sér: „Danir vita ekki hvað þeir eig að gera við Grænland, þeir eru í vanda. Einhver hefur nefnt það við Trump að ef Danmörk tekur stöðu Grænlands ekki alvarlega, þá séu þar tækifæri fyrir Bandaríkin.“

Danmörk stendur frammi fyrir fjölda erfiðra spurninga varðandi tengsl sín við Grænland, og vegna stefnu í Norðurslóðamálefnum gagnvart Rússlandi og Kína. Löngum hefur verið spenna í samskiptum Grænlands og Danmerkur. Grænland er sjálfsstjórnarríki sem telur 56.000 íbúa og liggur nær Washington en Kaupmannahöfn. Landið þiggur þó stjórn öryggis- og utanríkismála af Danmörku, ásamt 3,6 milljörðum danskra króna árlega af dönskum fjárlögum í styrk. Sjálfstæðishugmyndum Grænlands vex þó fiskur um hrygg, með tilliti til lakrar stöðu Grænlendinga gagnvart Dönum í landinu auk hneykslis vegna yfirhylmingar á geislamengun við Thule. Sumir þykjast sjá tækifæri fyrir Grænland til að notfæra sér stöðuna sem komin er upp í samskiptum Bandaríkjanna og Danmerkur vegna málsins, til að sækjast eftir sjálfstæði.

Rússar þenja hernaðarmátt sinn

Danir virðast hafa verið lengi að komast að niðurstöðu varðandi strategískt mikilvægi Grænlands á Norðurslóðum, á meðan Rússar þenja hernaðarmátt sinn á svæðinu og Kínverjar hafa verið nokkuð umbúðalausir varðandi áætlanir sínar þar. Kína var langt komið með fjármögnun þriggja flugvalla á Grænlandi, áður en Danmörk stöðvaði þær áætlanir í fyrra eftir þrýsting frá Bandarískum stjórnvöldum.

Bandarískir embættismenn hafa viðurkennt að áhyggjur þeirra vegna aðgerða Rússa og Kínverja, sé undirrót vafningalausra afskipta sinna og hugmyndarinnar um möguleikann á að kaupa Grænland. Norska ríkisútvarpið greindi t.a.m. í vikunni frá áhyggjum norskra stjórnvalda af viðamiklum heræfingum Rússlands á Noregshafi. Haft er eftir yfirmanni norska hersins, að flókin og umfangsmikil flotaæfing Rússa á Noregshafi hafi það markmið að loka aðgangi NATO að Eystrasalti, Norðursjó og Noregshafi, en hann áætlar að æfingin sé sú stærsta í 40 ár.

Danir hafa nú þegar ætlað sér að vera þátttakendur í kapphlaupinu um Norðurpólinn, með ítökum sínum á Grænlandi. Prófessor í Háskólanum á Grænlandi vonar að augu danskra stjórnvalda opnist nú fyrir mikilvægi Grænlands í alþjóðlegu samhengi.