Fullyrt að aflaheimildir hafi fengist með greiðslum til háttsettra aðila

Þorsteinn Már Baldvinsson, forstjóri Samherja var borinn þungum sökum í umfjöllun Kveiks á RÚV í kvöld.

Fullyrt var í þættinum Kveik í Ríkisútvarpinu í kvöld að útgerðarfélagið Samherji hafi fengið aflaheimildir með greiðslum til hátt settra embættismanna í Namibíu.

Helgi Seljan, einn umsjónarmanna þáttarins.

Sagt var frá því að Samherji hafi hagnast verulega á starfsemi sinni í Namibíu. Var fyrirtækið sakað um að hafa notfært sér skattaskjól í þeim tilgangi að koma hagnaði úr landi, skv. umfjöllun þáttarins, sem var í umsjón þeirra Helga Seljan, Aðalsteins Kjartanssonar og Stefáns Aðalsteins Drengssonar.

Jóhannes Stefánsson, fyrrverandi verkefnastjóri Samherja í Namibíu til ársins 2016, kom fram sem uppljóstrari í þættinum, og vísað var til gagnaleka til Wikileaks, sem á að styðja það sem þar kom fram.

Sakaði fyrirtækið um „skipulagða glæpastarfsemi“

„Þetta er bara glæpastarfsemi, þetta er bara skipulögð glæpastarfsemi. Þeir eru að græða á auðlindum landsins, taka allan pening út úr landi til þess að fjárfesta annarstaðar, þá í Evrópu eða Bandaríkjunum,” var á meðal þess sem Jóhannes sagði í þættinum.

Starfsemi Samherja í Namibíu á að hafa farið þannig fram að allt að þrír verksmiðjutogarar hafi verið við veiðar á hrossamakríl við landið, eftir því sem sagt var frá í þættinum. Jafnframt eiga dótturfélög Samherja á Kýpur að hafa leigt togarana tveimur útgerðum Samherja í Namibíu. Kötlu, sem seinna á að hafa fengið nafnið Mermaria, og Arcticnam, sem Samherji hafi átt að eiga ásamt hópum kvótaleyfishafa í landinu.

Í þættinum sagði einnig að Samherji hafi komist yfir kvótann og hafi tryggt sér þannig tugmilljarða króna verðmæti. Katla, eða Mermaria, á að hafa notið óvenjulegra sérkjara ríkisfyrirtækisins Fishcor og með milliríkjasamningi á milli Namibíu og Angóla.