Fylgi flokka: Spáir formannskiptum í Framsókn – Lilja taki við í vetur

„Staðan kemur ekkert á óvart. Stjórnarflokkarnir stóðu sig hraklega í orkupakkamálinu. Sjálfstæðisflokkurinn fær eflaust eitthvað fylgi til baka, en vonandi bara sem minnst. Hann hefur verið allt of sterkur og einráður í íslenskum stjórnmálum í áratugi,“ sagði Bjarni (bóksali) Harðarson, í samtali við Viljann sem innti hann og Pál Vilhjálmsson, blaðamann og kennara, álits á fylgi stjórnmálaflokkanna skv. nýjustu könnun MMR.

Bjarni Harðarson, fv. alþingismaður og bóksali.

„Miðflokkurinn er að sækja mest á, en þó virkar hann eins og í drullupolli popúlískra flokka. Ég held að ef hann hristir af sér útlendingafóbíuna og annað slíkt, þá yrði það honum mjög til framdráttar. Ég er ekki viss um að þessir popúlistaflokkar slái svo sterkan streng í hjörtum Íslendinga. Mér finnst að við ættum að opna landið sem mest öðrum þjóðum, því hér erum við allt of fá.“

Vinstri stefnan og ESB – „Það er einhver ólykt af þessu“

Spurður hvort hann teldi borgaralegu öflin vera að sækja á sagði Bjarni: „Nei það held ég ekki, ég held að Samfylkingin sé nú flokkur borgaralegra sjónarmiða og VG sem áður var uppreisnarflokkur sé við það sama. Flokkar sem standa fyrir róttæk gildi, það ber nú ekki mikið á þeim og þeir eru ekki mjög sannfærandi í sínum málatilbúnaði. Sjónarmiðin vinstri og hægri virka nokkuð einkennileg á mig í umræðunni. Til dæmis þeir sem kenna sig við vinstri stefnu, en vilja svo að markaðslögmál Evrópusambandsins ráði. Það er einhver ólykt af þessu.“

Sjálfstæðisflokkurinn eltir pópúlisk mál eins og manngert veðurfar

Páll Vilhjálmson, blaðamaður og kennari.

„Sjálfstæðisflokkurinn gerir ekki betur en halda sínu frá síðustu könnun og er þó hressilega fyrir neðan kosningafylgi. Stóru tíðindin eru sókn Miðflokksins sem, þrátt fyrir atsókn gegn sér frá hægri og vinstri, bætir verulega við sig. Þetta kemur ekki á óvart. Miðflokkurinn er öfgalaus borgarapólitík, sem fellur ekki í gryfju Sjálfstæðisflokksins að elta pópúlísk mál eins og manngert veðurfar,“ hafði Páll Vilhjálmsson helst um málið að segja.

Páll segir annað sem veki athygli, vera stórtap Pírata.

„Fylgi Pírata fer að einhverju leyti heim til Samfylkingar og að einhverju leyti til Sósíalistaflokksins. Þá boðar þessi könnun formannsskipti hjá Framsókn. Lilja tekur við flokknum í vetur.“