Fyrrum aðstoðarmaður ráðherra lét gera nýjan uppdrátt af Drangavík

Guðmundur Ingi Guðbrandsson umhverfisráðherra.

Fyrrverandi aðstoðarmaður umhverfisráðherra, Sif Konráðsdóttir lögmaður, lét teikna nýjan uppdrátt af jarðamörkum Drangavíkur í Árneshreppi, án vitundar landeigenda, samkvæmt bréfi eins þeirra til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála. Nefndin hefur til umfjöllunar kæru landeigenda byggðri á þeim uppdrætti. Frá því greindi Bæjarins besta á Ísafirði í gær.

Nýr uppdráttur af jarðamörkum ekki pantaður af landeigendum

Guðrún Anna Gunnarsdóttir er einn eigenda jarðarinnar Drangavíkur, en hún þó ekki aðili að kæru eigenda jarðarinnar til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála vegna framkvæmdaleyfis VesturVerks vegna Hvalárvirkjunar. Í formlegu bréfi Guðrúnar Önnu til nefndarinnar, dags. 27. júní 2019, gerir hún athugasemd við kæruna vegna hins nýja uppdráttar.

Í bréfinu segir að Sigurgeir Skúlason landfræðingur, hafi að beiðni Sifjar Konráðsdóttur lögmanns, gert nýjan uppdrátt að jarðamörkum Drangavíkur, sem ekki sé til samræmis við eldri gögn og hefðir. Sá uppdráttur er dagsettur þann 19. júní 2019. Jafnframt segir í bréfinu að Sigurgeir hafi að eigin sögn gert annan uppdrátt með öðrum jarðamörkum, en að honum hafi „verið hafnað“. Þann uppdrátt hafi Sigurgeir ekki viljað afhenda landeigendum.

„Uppdrátt kærenda vann Sigurgeir Skúlason að eigin sögn að beiðni Sifjar Konráðsdóttur. Sú beiðni var og er án vitundar landeigenda“, að því er segir í bréfinu. Þessi nýi uppdráttur af jarðamörkum Drangavíkur er á meðal þeirra gagna sem stuðst er við í kærunni til úrskurðarnefndarinnar.

Bréfritara er ekki ljóst, skv. bréfinu, hver greiðir fyrir gerð uppdráttarins.

Jarðamörk verið óumdeild um aldir

Í bréfi Guðrúnar Önnu, sem Viljinn hefur undin höndum, segir: „Með eru skjöl frá 1890, 2006, 2014 og 2018 sem öllum ber saman. Þau segja og sýna jarðamörk Drangavíkur með óyggjandi hætti. Rekamörk, vatnsföll, vatnaskil og eða fjallseggjar hafa frá ómunatíð ráðið jarðamörkum á Ströndum. Jarðamörk Engjaness, Drangavíkur og Dranga hafa verið óumdeild um aldir það best er vitað“.

Máli sínu til stuðnings leggur Guðrún Anna fram, ásamt bréfinu, ljósrit úr landamerkjabók Strandasýslu frá árinu 1890 fyrir jarðirnar Engjanes, Drangavík og Dranga sem sýni þinglesin skjöl úr landamerkjaskrá dagsett 2. júlí það ár, uppdrætti Ásgeirs Gunnars Jónssonar frá árinu 2014, Landmælinga Íslands frá árinu 2006 og Óbyggðanefndar frá árinu 2018, en einnig uppdrátt Sigurgeirs Skúlasonar dags. 19.06.2019.

Að auki segir í bréfi Guðrúnar Önnu: „Ljóst er að kort kærenda sem sýnir jarðamörk Drangavíkur dagsett 19.06.2019 og unnið af Sigurgeiri Skúlasyni er ekki byggt á ríkjandi hefðum til fjalla sem í þessu tilfelli eru vatnaskil.“

„Sé kæran vísvitandi sett fram á fölskum forsendum og einungis til að valda öðrum skaða er það hugsanlega refsivert athæfi. Sé eigendum við undirritun kæru sýnd röng gögn er það hugsanlega refsivert athæfi.“ segir jafnframt í bréfinu.

Ráðherra fer ekki leynt með afstöðu sína

Guðmundur Ingi Guðbrandsson, umhverfisráðherra, tjáði sig við Fréttablaðið í fyrradag, þar sem ekki verður annað séð en að hann taki skýra afstöðu með kærendum. „Mín persónulega skoðun er allavega sú að það sé rétt að bíða eftir úrskurði nefndarinnar, ekki síst í jafn umdeildu máli. Annað er í raun óverjandi“.

Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála starfar sjálfstætt en er á forræði umhverfisráðuneytisins. Ráðherra skipar formann nefndarinnar og varaformann lögum samkvæmt til fimm ára í senn. Aðrir nefndarmenn eru skipaðir til fjögurra ára í senn. Viljinn fékk þær upplýsingar hjá ráðuneytinu að síðast hafi nefndin verið skipuð þann 4. janúar 2016. Talið er að meðferð málsins muni taka um ár fyrir nefndinni, að því er Fréttablaðið greindi frá.

Vikið úr starfi aðstoðarmanns í fyrra

Guðmundur Ingi og Sif störfuðu áður saman hjá umhverfissamtökunum Landvernd, þar sem hann var framkvæmdastjóri árin 2011-2017 og hún lögfræðingur.

Sif er jafnframt fyrrverandi aðstoðarmaður umhverfisráðherra. Henni var vikið úr því starfi þann 16. febrúar 2018, en fjölmiðlaumfjöllun um mál sem henni tengdust höfðu farið hátt í aðdraganda brottvikningarinnar. Þ.á m. um kvörtun fyrrum skjólstæðings til Lögmannafélags Íslands vegna starfa hennar, skv. Fréttablaðinu í fyrra.

Þá var greint frá því í Fréttablaðinu þann sama dag, að Guðmundur Ingi hefði til meðferðar mál um friðun jarðar í eigu Sifjar, en friðunin hefði getað komið í veg fyrir lagningu Blöndulínu 3. Sif og maður hennar, Ólafur Valsson, hefðu barist gegn lagningu línunnar, og hefðu þannig persónulegra hagsmuna að gæta.

Ekki náðist í Sif Konráðsdóttur við vinnslu fréttarinnar.