Hæstiréttur Spánar hefur dæmt fyrrum ráðamenn sjálfstjórnarsvæðisins Katalóníu í samtals 100 ára fangelsi. Þeir voru ákærðir vegna tilrauna til að koma á sjálfstæði Katalóníu frá Spáni, í óþökk spænskra stjórnvalda. Frá því greinir katalónska blaðið El Nacional, en niðurstöðurnar voru birtar í morgun.
Fyrrum varaforseti Katalóníu, Oriol Junqueras fékk 13 ára fangelsisdóm og jafnlangt bann við að gegna opinberum störfum, fyrir upphlaup gegn allsherjarreglu og/eða yfirvöldum. Fyrrum forseti þingsins, Carme Forcadell, borgaralegu leiðtogarnir Jordi Sànchez og Jordi Cuixart, og fyrrum ráðherrarnir Jordi Turull, Raül Romeva, Dolors Bassa, Josep Rull og Joaqim Forn, voru dæmdir fyrir sömu sakir, og hlutu á milli 9 og 12 ára fangelsisdóm hver um sig. Junqueras, Romeva, Turull og Bassa voru einnig dæmdir fyrir misnotkun á opinberu fé.
Þrír aðrir fyrrum ráðherrar heimastjórnarinnar, Santi Vila, Meritxell Borràs og Charles Mundó voru dæmdir fyrir óspektir en hlutu ekki fangelsisrefsingu. Lögmenn fyrrum stjórnarmeðlimanna eru fyrir Evrópudómstólnum í Lúxemborg í dag, þar sem þeir láta reyna á þingmannafriðhelgi Junqueras.
Var hlíft við þyngsta ákæruliðnum
Hinir ákærðu voru sýknaðir af alvarlegasta ákæruliðnum, sem var uppreisn. Dómararnir útskýrðu að þrátt fyrir að sýnt hafi verið fram á ofbeldisverk, hafi ekki verið sannað með nægjanlegum hætti að þau samanstandi af því sem þarf, til að flokkast sem uppreisn.
Ekki mættu allir hinna ákærðu fyrir réttinn. Fyrrum forseti Katalóníu, Charles Puigdemont og ráðherrarnir Toni Comín, Clara Ponsatí, Meritxell Serrel og Lluís Puíg eru í útlegð. Belgía hefur neitað að afhenda Serret, Puig og Comín vegna formgalla framsalsbeiðni spænskra yfirvalda. Réttur í Slésvík-Holstein í Þýskalandi hafnaði framsali á Puigdemont á grundvelli ákæru um uppreisn og misnotkun á opinberu fé. Búist er við að framsalsbeiðnir verði lagðar fram að nýju á grundvelli niðurstaðna hæstaréttar Spánar í dag.
Tímalína atburðanna sem leiddu til ákæru og dóms
Réttarhöldin byggðu á þeim atburðum sem urðu í byrjun september 2017, þegar katalónska þingið samþykkti lög um þjóðaratkvæðagreiðslu um sjálfstæði Katalóníu og hvernig niðurstaða hennar skyldi framkvæmd. Hæstiréttur Spánar ógilti þau strax í framhaldinu, þar sem Katalónía hefði ekki fullan rétt til sjálfsákvörðunar. Fjórtán hátt settir katalónskir embættismenn voru handsamaðir af spænskum þjóðvarðliðum í framhaldinu. Þjóðaratkvæðagreiðslan var haldin 1. október 2017, og spænskir þjóðvarðliðar ásamt lögreglu reyndu með valdi að koma í veg fyrir að kosningin færi fram. Í lok október 2017, lýsti katalónska þingið yfir sjálfstæði Katalóníu, en stjórnvöld á Spáni beittu í framhaldinu 155. gr. spænsku stjórnarskrárinnar til að hlutast beint til um stjórn svæðisins.