Fyrsta kosningaútspil Sigmundar Davíðs: Leiðrétting fyrir ferðaþjónustu

End­ur­skipu­leggja þarf skuld­ir fyr­ir­tækja í ferðaþjón­ustu ef ekki á illa að fara og það er lík­lega ekki úr vegi að tala um leiðrétt­ingu. Ann­ars gæti saga eft­ir­hruns­ár­anna end­ur­tekið sig þegar fyr­ir­tæki voru yf­ir­tek­in og fjöldi fólks skil­inn eft­ir í sár­um.

Þessi skilaboð sem kalla mætti fyrsta útspil Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar, formanns Miðflokksins og fv. forsætisráðherra, setur hann fram í samtali við Morgunblaðið í dag. Undanfarið hefur verið beðið eftir því að Sigmundur Davíð kæmi fram á sviðið vegna kórónaveirukrísunnar, enda skammt til þingsetningar og alþingiskosningar áformaðar næsta haust.

Miðflokkurinn fór lengi vel ekki mikinn í gagnrýni sinni á stjórnvöld vegna viðbragða við veirufaraldrinum, en undanfarið hefur nokkur breyting orðið þar á. Skoðanakönnun MMR í gær sýnir umtalsverða fylgisaukningu flokksins, eða um tæplega þrjú prósentustig og mælist nú 10,8%.

Stuðningur við ríkisstjórnina mældist nú 51,0% og jókst um tæpt prósentustig frá síðustu könnun, þar sem stuðningur mældist 50,1%.

  • Fylgi Sjálfstæðisflokksins mældist nú 25,6% og mældist 24,0% í síðustu könnun.
  • Fylgi Pírata mældist nú 15,0% og mældist 14,3% í síðustu könnun.
  • Fylgi Samfylkingarinnar mældist nú 12,8% og mældist 14,9% í síðustu könnun.
  • Fylgi Miðflokksins mældist nú 10,8% og mældist 8,0% í síðustu könnun.
  • Fylgi Viðreisnar mældist nú 9,4% og mældist 10,0% í síðustu könnun.
  • Fylgi Vinstri grænna mældist nú 8,5% og mældist 9,6% í síðustu könnun.
  • Fylgi Framsóknarflokksins mældist nú 8,3% og mældist 8,9% í síðustu könnun.
  • Fylgi Sósíalistaflokks Íslands mældist nú 4,3% og mældist 3,4% í síðustu könnun.
  • Fylgi Flokks fólksins mældist nú 3,6% og mældist 4,8% í síðustu könnun.
  • Stuðningur við aðra mældist 1,7% samanlagt.

Flokksráðsfundur á laugardag

Miðflokkurinn heldur sinn fimmta flokksráðsfund laugardaginn 26. september á fjarfundaforritinu Zoom. Í upphafi fundar heldur formaður flokksins opnunarræðu sem setur tóninn fyrir komandi þingvetur.

Fundurinn hefst klukkan 13 og áætluð fundarlok eru kl 16:30.

Fundinn sitja helstu trúnaðarmenn flokksins og sá hópur telur um 110 manns. Öðrum flokksmönnum er frjálst að fylgjast með fundinum en þeir hafa ekki atkvæðisrétt. Fjöldi þeirra sem hafa skráð sig á fundinn er á þriðja hundrað og búist er við að þáttakendum fjölgi næstu daga. Til stendur meðal annars að taka ákvörðun um boðun Landsþings Miðflokksins og innri málefni flokksins eru rædd.

Óumflýjanlegt að styrkja ferðaþjónustuna

Sig­mund­ur Davíð segir í viðtalinu við Morgunblaðið, að óumflýj­an­legt sé að styrkja ferðaþjón­ust­una svo hún lifi af far­ald­ur­inn. Aðgerðir stjórn­valda til að halda aft­ur af veirunni skapi sterk­an sam­fé­lags­leg­an og siðferðis­leg­an rétt ferðaþjón­ustu og annarra at­vinnu­greina til að njóta aðstoðar.

Framund­an sé erfiður vet­ur þar sem sam­drátt­ur­inn muni fær­ast meira yfir í önn­ur svið hag­kerf­is­ins en ferðaþjón­ust­una.

Leiðrétt­ing verðtryggðra íbúðalána var helsta kosn­inga­málið í alþing­is­kosn­ing­un­um 2013 og stóra útspil Framsóknarflokksins þá, undir forystu Sigmundar Davíðs, og kom svo til framkvæmda árið 2015 þegar hann var orðinn forsætisráðherra.

Sig­mund­ur Davíð tel­ur aðferðafræði leiðrétt­ing­ar­inn­ar geta nýst aftur nú:

„Ég tel að slík leiðrétt­ing gæti vel verið viðeig­andi leið og að reynsl­an af leiðrétt­ingu íbúðalána geti komið að gagni. Það var alltaf lyk­il­atriðið í leiðrétt­ing­unni að ekki væri verið að gefa ein­hverj­um eitt­hvað sem hann ætti ekki til­kall til, held­ur aðeins að bæta eins og kost­ur væri tjónið sem varð af þess­um ástæðum,“ segir hann.

Hann kveðst hafa miklar áhyggjur af ein­hæf­ara fyr­ir­tækjalands­lagi og samþjöppun framundan. „Þar sem menn nota tæki­færið, ef svo má segja, og kaupa fyr­ir­tæki af þeim sem hafa lent í mikl­um hremm­ing­um, og þá á lágu verði, og njóti svo ein­ir ágóðans þegar hlut­irn­ir lag­ast. Að þeir njóti þess að hafa haft tæki­færi til að kaupa eign­ir á bruna­út­sölu án þess að verða fyr­ir tjón­inu, og að þetta leiði til samþjöpp­un­ar, ekki aðeins í þess­ari grein held­ur jafn­vel í öðrum grein­um líka.“