Látinn er í Kaliforníu í Bandaríkjunum einhver merkasti Íslendingur seinni tíma og sá sem elstur var núlifandi karla hér á landi.

Ib Árnason Riis fæddist í Danmörku 15. janúar 1915, starfaði á Íslandi í nokkur ár sem skipstjóri og loftskeytamaður og njósnaði fyrir Þjóðverja og Breta hér á landi í síðari heimsstyrjöldinni.

Í um sjötíu ár bjó Ib í Kanada og Bandaríkjunum, varð tæplega 104 ára að aldri, um hann er að verða til sjónvarpsmynd sem ber hið skemmtilega heiti: „Fyrstu 100 árin voru verst“ og þakkaði hann sjálfur langlífið  aðallega pípureykingum, viskí og ákavíti og sagðist lítt hrifinn af því að taka einhver lyf.

Morgunblaðið skýrir frá andláti Ibs í dag. Árið 1991 kom út bók þar sem ævintýralegu lífshlaupi hans voru gerð skil, en foreldrar hans voru þau Lovísa Nielsen (hálfsystir Hjartar Nielsen kaupmanns í Reykjavík) og Árni Aðalbjörnsson, en Jörgen Mickael Riis verslunarsjóri á Ísafirði og María Ásgeirsdóttir ættleiddu Árna. Hann var alinn upp í Kaupmannahöfn en var stýrimaður og skipstjóri hér við land á árum fyrri heimsstyrjaldarinnar.

Ib Árnason Riis með frænda sínum, kvikmyndagerðarmanninum Helga Felixsyni.

„Þjóðverj­ar sendu hann til Íslands til að njósna um um­svif breska hers­ins þar sem hann talaði ís­lensku. Eft­ir að hafa geng­ist und­ir þjálf­un í njósna­skóla í Ham­borg kom hann hingað til lands með kaf­báti í mars 1942 með sendi­tæki í fór­um sín­um og komst í land á sunn­an­verðu Langa­nesi eft­ir mikla hrakn­inga. Við kom­una til Íslands gaf Ib sig strax fram við Breta og var í fram­hald­inu send­ur með skipi til Bret­lands, þar sem hann var skólaður til í gagnnjósn­um. Að því búnu sneri hann aft­ur til Íslands og dvald­ist hér á landi uns stríðinu lauk. Var hon­um falið að senda Þjóðverj­um vill­andi skeyti með sendi­tæk­inu sem hann hafði með sér til Íslands. Gekk hann sem gagnnjósn­ari und­ir dul­nefn­inu Cobweb,“ segir í frásögn blaðsins.

Ásgeir Guðmunds­son sagði sögu Ibs í bók sem nefn­ist Gagnnjósn­ari Breta á Íslandi og kom út árið 1991. Með bókinni var svipt hulunni af sögu sem fram að því hafði verið á fárra vitorði.

Ib flutti til Kan­ada árið 1949 og síðan til Banda­ríkj­anna árið 1955 og bjó þar til æviloka en hélt ís­lensk­um rík­is­borg­ara­rétti. Helgi Felix­son, frændi Ibs, sem unnið hef­ur að kvik­mynd um hann und­an­far­in ár, lýsti hon­um þannig í viðtali við Morg­un­blaðið á síðasta ári að hann væri ern og á róli, reykti pípu og fengi sér viskí og áka­víti.

Eig­in­kona Ibs var Sigrún Þór­ar­ins­dótt­ir en hún lést árið 2010. Þau eignuðust fjög­ur börn.