Látinn er í Kaliforníu í Bandaríkjunum einhver merkasti Íslendingur seinni tíma og sá sem elstur var núlifandi karla hér á landi.
Ib Árnason Riis fæddist í Danmörku 15. janúar 1915, starfaði á Íslandi í nokkur ár sem skipstjóri og loftskeytamaður og njósnaði fyrir Þjóðverja og Breta hér á landi í síðari heimsstyrjöldinni.
Í um sjötíu ár bjó Ib í Kanada og Bandaríkjunum, varð tæplega 104 ára að aldri, um hann er að verða til sjónvarpsmynd sem ber hið skemmtilega heiti: „Fyrstu 100 árin voru verst“ og þakkaði hann sjálfur langlífið aðallega pípureykingum, viskí og ákavíti og sagðist lítt hrifinn af því að taka einhver lyf.
Morgunblaðið skýrir frá andláti Ibs í dag. Árið 1991 kom út bók þar sem ævintýralegu lífshlaupi hans voru gerð skil, en foreldrar hans voru þau Lovísa Nielsen (hálfsystir Hjartar Nielsen kaupmanns í Reykjavík) og Árni Aðalbjörnsson, en Jörgen Mickael Riis verslunarsjóri á Ísafirði og María Ásgeirsdóttir ættleiddu Árna. Hann var alinn upp í Kaupmannahöfn en var stýrimaður og skipstjóri hér við land á árum fyrri heimsstyrjaldarinnar.

„Þjóðverjar sendu hann til Íslands til að njósna um umsvif breska hersins þar sem hann talaði íslensku. Eftir að hafa gengist undir þjálfun í njósnaskóla í Hamborg kom hann hingað til lands með kafbáti í mars 1942 með senditæki í fórum sínum og komst í land á sunnanverðu Langanesi eftir mikla hrakninga. Við komuna til Íslands gaf Ib sig strax fram við Breta og var í framhaldinu sendur með skipi til Bretlands, þar sem hann var skólaður til í gagnnjósnum. Að því búnu sneri hann aftur til Íslands og dvaldist hér á landi uns stríðinu lauk. Var honum falið að senda Þjóðverjum villandi skeyti með senditækinu sem hann hafði með sér til Íslands. Gekk hann sem gagnnjósnari undir dulnefninu Cobweb,“ segir í frásögn blaðsins.
Ásgeir Guðmundsson sagði sögu Ibs í bók sem nefnist Gagnnjósnari Breta á Íslandi og kom út árið 1991. Með bókinni var svipt hulunni af sögu sem fram að því hafði verið á fárra vitorði.
Ib flutti til Kanada árið 1949 og síðan til Bandaríkjanna árið 1955 og bjó þar til æviloka en hélt íslenskum ríkisborgararétti. Helgi Felixson, frændi Ibs, sem unnið hefur að kvikmynd um hann undanfarin ár, lýsti honum þannig í viðtali við Morgunblaðið á síðasta ári að hann væri ern og á róli, reykti pípu og fengi sér viskí og ákavíti.
Eiginkona Ibs var Sigrún Þórarinsdóttir en hún lést árið 2010. Þau eignuðust fjögur börn.