„Flutningur leitarstarfsins er að mínu mati geðþóttaákvörðun, tekin án trúverðugs rökstuðnings og vandaðs undirbúnings, og ég velti því fyrir mér hvað raunverulega liggur að baki ákvörðun ráðherrans.“
Þetta segir Sigurður Björnsson, læknir og f.v. formaður Krabbameinsfélags Íslands, í grein sem birt er í Morgunblaðinu á laugardaginn sl. undir yfirskriftinni „Hvaða sjónarmið ráða för?“, og beinir orðum sínum m.a. til heilbrigðisráðherra, Svandísar Svavarsdóttur.
„Ástæðan fyrir því að ég skrifa þessa grein er sú að ég get ekki orða bundizt vegna þeirrar ákvörðunar núverandi yfirvalda heilbrigðismála að flytja leit að krabbameini í brjóstum og leghálsi frá Leitarstöð Krabbameinsfélags Íslands.“
Engin haldbær rök liggi til grundvallar ákvörðuninni
Sigurði sé ekki kunnugt um að fyrir liggi fyrir kostnaðarútreikningar vegna málsins og ekki hafi verið haft samráð við Krabbameinsfélag Íslands, né konurnar sem til stöðvarinnar leita um þjónustu. Þannig skorti rökstuðning fyrir ákvörðuninni.
Starfsemi leitarstöðvar Krabbameinsfélags Íslands hafi skilað marktækum árangri við að greina á byrjunarstigi krabbamein í konum. Efniviður Leitarstöðvarinnar hafi nýtst til vísindavinnu og mikins fjölda vísindagreina. Sé þar m.a. um að ræða faraldsfræðirannsóknir, flestar í samvinnu við Krabbameinsskrá félagsins, sem sé í fremstu röð slíkra skráa, segir Sigurður í greininni.
Frumkvæði og eldmóður fólksins í landinu að baki starfinu
Hann segir að fjölmörg félög og samtök hafi verið stofnuð í gegnum tíðina af áhugamönnum um málefni heilbrigðisþjónustu í gegnum tíðina, þar sem unnið hefur verið af eldmóði og oft í sjálfboðavinnu:
„Þessi almannaheillasamtök voru stofnuð af áhugamönnum á sviði mismunandi þjóðþrifamála, þar sem mönnum fannst að verk væri að vinna, og flest hafa starfað fyrir sjálfsaflafé í góðri samvinnu við stjórnvöld og jafnvel með dyggum stuðningi og þakklæti þeirra. Vert er að þakka stjórnvöldum hvers tíma fyrir hvatningu og stuðning við slík samtök, stjórnvöld hafa einnig verið iðin við að þakka fólkinu í landinu fyrir stuðning og gjafmildi við hin ýmsu félög og hafa heiðrað forystumenn þeirra og hinn almenna sjálfboðaliða fyrir fórnfúst starf. Mörg slík félög hafa á einhverjum tímapunkti lent í erfiðleikum með fjármögnun en flest slík vandamál verið leyst með hagsýni og dyggum stuðningi fólksins í landinu.“
„Sjaldan hefur það gerzt að stjórnvöld hafi ákveðið að taka til sín verðmætustu bitana úr starfsemi félaganna og þá sem mestrar virðingar og þakklætis hafa notið meðal fólksins.“