Gjaldþrot Wow hefði víðtæk áhrif á hagkerfið: Icelandair með pálmann í höndunum

„Það koma kannski jól, bara kannski: Á túristum lifir þorpið. Flugvélarnar liggja tómar við landganginn í Keflavík, í hreyflunum hvín. Baráttan er vonlaus og hótelin tóm!“

Þannig er inngangur lokaðrar greiningar sem Capacent sendi fjárfestum sínum í gær og Viljinn hefur undir höndum. Er í upphafsorðunum greinilega verið að vitna til frægs lags Bubba Morthens um sjávarþorpin og aflaheimildirnar sem eru farnar suður og fólkið með.

Þar segir að Capacent skilji stundum bara ekkert í hlutabréfamarkaðnum eða fréttaflutningi.

„Geðsveiflurnar og taugaveiklunin algjör. Öllum virðist vera kalt en Capacent er bara heitt. Capacent vinnur sín verðmöt og fær víst fyrir það greitt. Rekstraraðstæður í flugrekstri hafa snarbreyst og eru aðstæður svipaðar og þær voru árið 2016 í það minnsta þegar litið er til gengi krónu og olíuverðs. Árið 2016 var metár í rekstri íslensku flugfélaganna. Rekstrarhagnaður (EBIT) Icelandair nam 118 milljón dollara eða 14.800 m.kr. og EBIT Wow nam 30 milljónum dollara eða 3.750 m.kr. Lækkun Icelandair síðustu tvo daga upp á 13% er torskilin að mati Capacent. Lækkun á gengi Icelandair skilst Capacent sé vegna þess að vænt kaup félagsins á Wow eru í uppnámi. Er það eitthvað slæmt fyrir Icelandair? Ljóst er að sameining Icelandair og Wow yrði gríðarlega stór, flókin og dýr sameining á íslenskan mælikvarða. Icelandair væri í draumastöðu bæði hvað varðar samkeppni og ytri aðstæður þrátt fyrir að sameining félagsins við Wow fari í vaskinn og Wow fari mögulega í gjaldþrot,“ segir í greiningunni.

Þar er engu að síður bent á, að stærstu eigendur Icelandair séu íslenskir lífeyrissjóðir og hugsmunir þeirra felist í að yfirtakan á Wow gangi eftir.

„Gjaldþrot Wow hefði væntanlega víðtæk áhrif á hagkerfið, verðmæti annarra eigna sjóðanna og útlán. Fréttir eru þó um að hótel séu uppbókuð um jólin og enn sé ferðamönnum að fjölga þótt þær fréttir fái ekki mikla athygli í ljósvakamiðlum. Væri það eitthvað slæmt fyrir Ísland að ferðamönnum myndi fækka lítillega? Líklegt er að með tíð og tíma myndu önnur flugfélög fylla hægt og rólega í skarðið sem Wow myndi skilja eftir sig,“ segir í greiningunni.

Og Greining Capacent segir að lokum:

„Það er sama hvernig viðræðum um kaup Icelandair á Wow fer. Icelandair mun alltaf standa með pálmann í höndunum.“