Gremju og öfundar gætir sumpart í garð þríeykisins

Þríeykið margfræga leggur línurnar fyrir upplýsingafund. / Almannavarnir.

Á næstu dögum kemur út bók eftir Björn Inga Hrafnsson, ritstjóra Viljans, um Ísland og COVID-19, þar sem skyggnst er á bak við tjöldin í viðbrögðum hér á landi við heimsfaraldrinum sem kom upp í Kína fyrir áramótin síðustu og hefur sett allt á hliðina. Viljinn birtir hér stutt brot úr einum kafla bókarinnar og mun gera slíkt kl. 16 næstu daga:

Við vinnslu þessarar bókar hafa ýmsir aðilar sem starfa í heilbrigðiskerfinu jafnframt viðrað þau sjónarmið að Alma hafi gert ákveðin mistök með því að verða hluti af hinu svonefnda þríeyki í upphafi faraldursins og þar með eitt af andlitum varnarviðbúnaðarins hér á landi. Benda þeir á að lögum samkvæmt hafi landlæknir ríkt eftirlitshlutverk með höndum og muni þurfa að gera faraldurinn og viðbrögð við honum upp þegar fram líða stundir. Þá geti komið sér illa að hafa sjálf verið hluti af teyminu frá degi til dags. Fjarlægðin sé ekki til staðar og því líklega nauðsynlegt að kalla til óháðan aðila til að hafa umsjón með slíkri úttekt.

Það er upplifun bókarhöfundar að nokkurrar gremju og jafnvel sumpart öfundar gæti í garð þríeykisins meðal hluta starfsfólks í heilbrigðiskerfinu svo og stjórnsýslunni. Þau hafi fengið gífurlega mikla og jákvæða athygli og njóti trausts meðal almennings sem eigi sér fá fordæmi. Þetta kunna ekki allir að meta sem starfa á þessum vettvangi frá degi til dags og finnst þeir sjálfir sjaldan eða lítt metnir að verðleikum.

Þegar bókarhöfundur innti Ölmu eftir þessu sagðist hún þekkja þessi sjónarmið en hafa af þeim litlar áhyggjur. Það sé sjálfsagður réttur í lýðræðisríki að gagnrýna og aldrei sé hægt að gera svo að öllum líki. Hún bendir á að landlæknar flestra landa hafi þessa eftirlitsskyldu og séu einnig skrifaðir með skýr hlutverk inn í áætlanir um heimsfaraldur. Þeirra hlutverk sé að fylgjast með og leggja lið við undirbúning heilbrigðiskerfisins, skipuleggja og viðhalda eftirliti með heilbrigðisþjónustu, meta viðbúnaðinn í kerfinu og miðla upplýsingum og ráðum til almennings, heilbrigðisstarfsfólks og stjórnvalda.

„Ég sá auðvitað ekki fyrir þegar faraldurinn var að fara hér af stað að ég yrði hluti af einhverju þríeyki, það var enginn sem sá það fyrir. Það bara gerðist. Mjög fljótlega í ferlinu falaðist Þórólfur eftir því að ég yrði við hliðina á honum því að hann sá að þetta væri allt of mikið fyrir einn mann,“ segir hún.

Undir þetta tekur Þórólfur sjálfur. Hann bendir á að landlæknir hafi haft stóru hlutverki að gegna á fyrstu vikum upplýsingafundanna með því að flytja ferskar upplýsingar um stöðu mála í heilbrigðiskerfinu, nokkuð sem hann hefði ekki getað borið ábyrgð á til hliðar við sóttvarnasjónarmiðin. Alma hafi auk þess verið ódrepandi drifkraftur í öllu starfi teymisins, ekki aðeins þríeykisins, heldur einnig öllu starfinu á bak við tjöldin. „Það var gríðarlega mikilvægt að hafa hana með, þess vegna segi ég það hafi verið miklu mikilvægara að fá hana inn í þetta hlutverk, vera gerandi í stað þess að standa að tjaldabaki og fylgjast með,“ segir hann.

Þessu er Víðir Reynisson yfirlögregluþjónn sammála. Hann segir það stundum hafa komið fyrir að risið hafi verið orðið lágt á honum og Þórólfi og verkefnin ærin. Þá hafi Alma jafnan hrifið þá aftur af stað, blásið þeim kapp í kinn og starfsorka hennar sé með algjörum ólíkindum.

*

Landlæknir er þó þeirrar skoðunar að best fari á því að einhver algjörlega óháður utanaðkomandi aðili geri úttekt fyrir hennar hönd á faraldrinum og viðbrögðum við honum þegar þar að kemur. Varla sé tímabært að ræða slíkt nú, þar sem veiran sé ekki á förum. Hún telur að slíka heildstæða úttekt eigi óháðir fræðimenn að hafa með höndum þegar þar að kemur.

Eftir að baráttan við COVID-19 hófst á Íslandi árið 2020 átti höfundur þessarar bókar nær dagleg samskipti við landlækni og sóttvarnalækni. Þótt staðan hafi á stundum verið snúin og viðfangsefnin ærin, hefur aldrei borið skugga á þessi samskipti. Allskonar misvitrum spurningum (sumum mjög gagnrýnum) hefur verið svarað jafnharðan, aðgangur veittur að upplýsingum sem ekki hafa verið birtar opinberlega og mikill vilji sýndur til samvinnu og góðra samskipta. Þau Alma og Þórólfur eru bæði fremur létt í skapi og stutt í húmorinn enda góður kostur í starfi sem þessu og við þær aðstæður sem ríkt hafa.