Um hundrað starfsmönnum flugfélagsins Wow air hefur verið sagt upp störfum. Loft er lævi blandið í fyrirtækinu, enda margir óvissir um stöðu sína í ljósi áframhaldandi óvissu um rekstrarframtíð þess. Hlutabréf í Icelandair tóku skyndilegan kipp í morgun og hækkuðu verulega í verði.
Eyjan skýrði fyrst fjölmiðla frá uppsögnunum, en sagði þær mun meiri en yfirlýsing Wow air gefur til kynna. Ef til vill skiptir þar máli hvort átt er við fastráðið starfsfólk eða verktaka.
Á Vísi kemur fram, að hluti starfsfólksins hefur þegar fengið uppsagnarbréf í hendurnar, skilað tölvum sínum og haldið til síns heima.
Berglind Hafsteinsdóttir formaður Flugfreyjufélags Íslands sagðist ekkert geta tjáð sig um málið að svo stöddu. Hún væri á fundi vegna málsins en ekki væri hægt að tjá sig fyrr en síðar í dag.
Viðræður við Indigo Partners standa enn
Ríflega þúsund manns starfa hjá Wow, svo umfang uppsagnanna er gríðarlegt hvernig sem á málin er litið. Uppsögn fólksins tekur strax gildi.
Viðræður standa nú yfir við bandaríska flugfjárfestingarsjóðinn Indigo Partners um stóra fjárfestingu í Wow air, sem hefur verið mjög fjárvana að undanförnu.
Þegar hætt var við kaup Icelandair á Wow air á dögunum, lýsti Skúli Mogensen, forstjóri og aðaleigandi Wow air, því yfir að hann útilokaði ekki uppsagnir starfsfólks, skera yrði niður kostnað og ná fram hagræðingu.
Indigo Partners reka nokkur gríðarstór lággjaldaflugfélög og hafa gengið nokkurt hart fram í að ná launakostnaði niður, t.d. með verktakasamningum við starfsfólk.
Eins og jafnan virðast fregnir af gengi Wow air hafa mikil áhrif á verðmyndun á hlutabréfum í Icelandair. Á sama tíma og fregnir fóru að berast af uppsögnum hjá Wow, rauk gengi bréfa í Icelandair upp í Kauphöll og var hækkunin ríflega sex prósent nú rétt áðan.
ATH: Upphaflegri fyrirsögn og texta fréttarinnar hefur verið breytt.