Á fundi sínum í Lundúnum í gær undirrituðu Guðlaugur Þór Þórðarson, utanríkisráðherra, og Jeremy Hunt, utanríkisráðherra Bretlands, samkomulag milli Íslands og Bretlands um að efla tvíhliða samstarf ríkjanna í varnar- og öryggismálum.
Um er að ræða uppfærslu af samkomulagi frá árinu 2008 sem nær nú til fleiri samstarfsþátta en áður í anda þjóðaröryggisstefnu fyrir Ísland. Samkomulagið tekur þannig bæði til þátta er varða varnar- og öryggismál sem og löggæslumála. Þar má t.a.m. nefna eftirlit í lofti og á sjó, hryðjuverkavarnir, skipulagða glæpastarfsemi, nútíma þrælahald, netöryggi og leit og björgun.
„Umhverfi öryggismála hefur tekið stakkaskiptum á umliðnum árum og því ánægjulegt að ljúka gerð samkomulags sem tekur mið af því. Ísland og Bretland eru náin samstarfsríki, meðal annars innan Atlantshafsbandalagsins og Sameinuðu þjóðanna, og deila hagsmunum víða, þ.m.t. á norðanverðu Atlantshafi. Við erum staðráðin í að takast á við nýjar áskoranir í sameiningu og stuðla að auknu öryggi og stöðugleika í okkar heimshluta. Þá er afar gott, á þessum tímapunkti, að árétta enn frekar þau jákvæðu tvíhliða samskipti sem við höfum átt við Bretland“, sagði Guðlaugur Þór.
Á fundinum ræddu ráðherrarnir einnig stöðuna varðandi fyrirhugaða útgöngu Bretlands úr Evrópusambandinu og málefni norðurslóða, að því er segir í tilkynningu utanríkisráðuneytisins.