„Við viljum koma til skila vonbrigðum okkar vegna nýlegrar ákvörðunar þinnar að fordæma Ísraelsríki með því að leggja blessun þína yfir hin svokölluðu BDS-samtök. Okkur langaði að benda þér á nokkur atriði sem lágu á milli hluta í yfirlýsingunni sem birtist á vefsíðu ASÍ í gær.“ Svona byrjar opið bréf samtakanna Með Ísrael fyrir friði (MIFF), til Drífu Snædal, forseta ASÍ, sem birt var á vefsíðu samtakanna í gær.
„Okkur finnst mjög vafasamt að forseti ASÍ taki afstöðu til pólitísks deilumáls milli fjarlægra landa og noti vefsíðu ASÍ sem málgagn í þeim tilgangi. Við borgum til stéttarfélaga sem eiga aðild að ASÍ og við viljum hvetja þig til að endurskoða þessa yfirlýsingu.“
Hvatti fólk til að kynna sér samtök sem eru gegn Ísrael
Tilefnið var yfirlýsing Drífu á vef Alþýðusambands Íslands (ASÍ) þann 4. nóvember sl. þar sem hún lýsti skipulagðri ferð starfsfólks ASÍ og kjörinna fulltrúa til Palestínu, og hvatti lesendur til að kynna sér starfsemi BDS samtakanna.
Í opnu bréfi MIFF til Drífu segir m.a.:
„Það heldur því enginn fram að Ísrael sé fullkomið ríki, en Ísrael er eina ríkið í heiminum sem þarf bókstaflega að verja tilverurétt sinn fyrir heimsbyggðinni þegar eitthvað bjátar á. BDS-samtökin hafa sett sig á móti tilverurétti Ísraels og því óhætt að fullyrða að þau hafi ekki áhuga á friði.“
Löngu eigi að vera ljóst að átökin einskorðist ekki við eignarhald á landi. „Árið 2000 var Palestínumönnum boðið svæði sem nemur 96% af Vesturbakkanum og Gaza, en þeir höfnuðu því og fóru í stríð í staðinn. Raunar hafa þeir hafnað öllum tilboðum um sjálfstætt ríki síðan fyrsta tilboðið barst árið 1947.“
Trefill Drífu með fána Palestínu og merki öfgasamtaka
MIFF bendir á að trefillinn, sem forseti ASÍ bar á myndinni sem fylgir yfirlýsingu hennar, sé með merki samtakanna PGFTU, sem krefjist alls landsvæðisins frá Jórdaníu og niður að strönd – sem er allt það landsvæði þar sem Ísraelsríki er.

MIFF gagnrýna einnig að Drífa hafi hvergi gagnrýnt stjórnir Palestínu vegna illrar meðferðar þeirra á sínum eigin borgurum.
„Hamas-samtökin sluppu líka fyrir horn í ummælum þínum um Gazasvæðið, en þeir hafa staðið fyrir stórfelldum flugskeytaárásum á Ísraelsríki frá því þeir komust til valda. Þeir tilheyra samtökum herskárra íslamista (Bræðralagi múslima) og m.a.s. Egyptar hafa lokað sínum landamærum að Gazasvæðinu af þeirri ástæðu. Ísraelsk yfirvöld hafa sent farma af nauðsynjum til Gaza árum saman, en byggingarefnið sem á að fara í hús og innviði nota Hamasliðar í jarðgöng sem eiga að hleypa árásarmönnum inn í Ísrael til að fremja hryðjuverk.“
„En það sem veldur okkur mestum áhyggjum er fordæmið sem þú gefur sem forseti mikilvægrar stofnunnar. Í hvert sinn sem eina Gyðingaríki heimsins er útmálað á svona neikvæðan hátt í fjölmiðlum fjölgar árásum á Gyðinga um öll Vesturlönd. Fyrr á árinu kom fram í íslenskum fjölmiðlum að margir Gyðingar á Íslandi þori ekki að segja öðrum frá þjóðerni sínu af ótta við ofsóknir.“