Gylfi Sigfússon mun láta af störfum sem forstjóri Eimskipafélags Íslands um næstu áramót. Frá þessu var greint í tilkynningu félagsins til Kauphallar Íslands í kvöld, en Eimskip er skráð á markaði.
Gylfi mun frá byrjun næsta árs stýra daglegum rekstri Eimskips í Bandaríkjunum og Kanada, ásamt flutningsmiðlunarfyrirtækinu Eimskip Logistics.
Nýr forstjóri Eimskips hefur ekki verið ráðinn, en stjórn félagsins hyggst fljótlega setja af stað ráðningarferli.
Baldvin Þorsteinsson, stjórnarformaður Eimskips, segir í tilkynningunni að Gylfi eigi að baki tæplega 30 ára feril hjá félaginu, þar af áratug sem forstjóri. Hann hafi tekið við félaginu og stýrt viðamikilli endurskipulagningu sem tekist hafi vel.
„Verkefnið var ekki aðeins mikilvægt fyrir Eimskip heldur einnig fyrir hagsmuni Íslands; að tryggja óhefta flutninga til og frá landinu á erfiðum tímum, treysta rekstrargrundvöll heima og erlendis, auk þess sem hann stýrði félaginu til nýrrar framtíðar með dugmiklu og samstilltu starfsfólki. Vinnan við endurskipulagninguna tókst vel og félagið stendur sterkt eftir,“ segir Baldvin.
Gylfi þakkar í tilkynningunni þeim fjölmörgu stjórnarmanna, stjórnenda og starfsmanna sem og viðskiptavina félagsins sem hann hafi unnið með. „Þessir aðilar settu allt sitt á vogarskálarnar til að koma Eimskip aftur á skrið. Rekstrar- og fjárhagsleg endurskipulagning félagsins reyndi mikið á starfsfólk en uppskeran var góð og nú siglir félagið inn í bjarta og spennandi tíma.“