Ef vindmyllur yrðu byggðar milljónum saman í Evrópu, væri hægt að sjá heiminum öllum fyrir orku til ársins 2050, er niðurstaða nýrrar vísindalegrar könnunar. Frá þessu greinir breski miðillinn Independent.
Til þess þyrfti að byggja 11 milljónir vindmylla til við bótar við þær sem þegar hafa verið reistar, en 46% alls landsvæðis í álfunni, 4,9 milljón ferkílómetrar að stærð, er talið henta undir þær. Til að ná loftslagsmarkmiðum þurfi að hundraðfalda framleiðslu á vindorku.
Vísindamenn segja niðurstöðuna vera vísbendingu um að tæknilega séu tækifæri og möguleikar til staðar, til að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda. Þeir segja gögn til grundvallar skýrslunni vera upplýsingar frá gervihnöttum og úr vindmælingum, en einnig gögn um samgöngur, stjórnmálaumhverfi og regluverk ríkja.
Samanlagt sýni þau hvar best væri mögulegt að nýta vindorku. Fýsileiki vindorkuvera skv. þeim sé mestur við strandlengjur og á víðernum, þ.e. á Íslandi, í Noregi, Rússlandi og Suðaustur-Evrópu.