Hækkanir kjararáðs festar í sessi, en nýtt fyrirkomulag kynnt til framtíðar

Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra hefur lagt fram á Alþingi frumvarp um breytingu á ýmsum lögum vegna brottfalls laga um kjararáð, nr. 130/2016, með síðari breytingum (launafyrirkomulag).

Verði frumvarpið að lögum er hækkun sú á launum æðstu embættismanna þjóðarinnar sem Kjararáð hafði ákveðið fest í sessi, en fyrirkomulag til framtíðar um endurskoðun launa gjörbreytt. Lagt er til að engin hækkun verði á launum æðstu embættismanna um næstu áramót til þess að liðka fyrir gerð kjarasamninga.

Samkvæmt frumvarpinu á forseti Íslands að fá 2.985.000 kr á mánuði, eða rétt tæpar þrjár milljónir. Þingfararkaup verður um 1,1 milljón, forsætisráðherra fær rúmlega 2 milljónir á mánuði og aðrir ráðherra um 1,8 mkr á mánuði. 

Launin skulu taka breytingum 1. júlí ár hvert. Hagstofa Íslands reiknar og birtir fyrir 1. júní hlutfallslega breytingu á meðaltali reglulegra launa starfsmanna ríkisins fyrir næstliðið almanaksár. Við mat á launabreytingum aflar Hagstofan skýrslna og gagna sem hún telur nauðsynleg og gerir jafnframt eigin kjararannsóknir eftir því sem hún telur þörf á.

Við launaafgreiðslu fyrir júlí uppfærir Fjársýsla ríkisins krónutölufjárhæð til samræmis við tölur Hagstofunnar. Ráðherra sem fer með starfsmannamál ríkisins getur ákveðið að launin hækki hlutfallslega 1. janúar til samræmis við áætlaða breytingu á meðaltali reglulegra launa starfsmanna ríkisins sem Hagstofan birtir fyrir 1. júní. 

Sjá nánar frumvarpið, en þar er m.a. fjallað um það hver laun ráðuneytisstjóra, dómara og seðlabankastjóra eigi að vera til framtíðar.