Hafna innleiðingu: Framsókn vill undanþágu frá þriðja orkupakka ESB

Jón Ingi Gíslason, formaður kjördæmissambanda Framsóknar í Reykjavík.

„Við erum bara afar ánægðir að miðstjórn hafi verið einhuga um að nýta verði rétt okkar til að fá undanþágu frá þessari innleiðingu enda á hún ekki við hér á landi,“ segir Jón Ingi Gíslason, formaður kjördæmasambanda Framsóknarflokksins í Reykjavík um ályktun miðstjórnarfundar flokksins um orkupakka þrjú.

Miðstjórn ályktaði í dag um að hafna innleiðingu pakkans, enda eigi hann ekki erindi hér. 

Jón Ingi lagði tillöguna fram á fundinum ásamt þeim Frosta Sigurjónssyni, Birni Harðarsyni og Kristni Degi Gissurarsyni. Hann segir að endanleg ályktun hafi verið efnislega sammála tillögudrögum þeirra félaga og aðeins hafi verið gerðar á henni smávægilegar breytingar.

Jón Ingi telur að ályktun miðstjórnarinnar sé í góðu samræmi við ræðu formanns flokksins, Sigurðar Inga Jóhannssonar samgönguráðherra, að sækjast beri eftir undanþágum frá orkupakkanum. Nú sé það stjórnvalda að búa þannig um hnútana.

Tillagan sem lá fyrir haustfundi miðstjórnar um orkupakkann var svohljóðandi:

„Framsóknarflokkurinn hafnar innleiðingu þriðja orkupakkans
Orkuauðlindin er ein af mikilvægustu forsendum velmegunar í landinu. Framsóknarflokkurinn áréttar mikilvægi þess að allar ákvarðanir í orkumálum verði í höndum íslendinga og minnir á að stjórnarskrá Íslands leyfir ekki framsal ríkisvalds til erlendra stofnana. Aðstæður Íslands í orkumálum eru gjörólíkar þeim sem liggja til grundvallar orkulöggjöf ESB og því er óskynsamlegt að innleiða það regluverk hér. Auk þess hefur Ísland enga tengingu við orkumarkað ESB og Framsóknarflokkurinn hefur ályktað að slík tenging þjóni ekki hagsmunum landsmanna. Því ber að að hafna innleiðingu þriðja orkupakkans og semja við ESB um að Ísland verði undanþegið orkulöggjöf ESB.“