Hálendisþjóðgarður og Þjóðgarðastofnun í bígerð

Stefnt er að því að búa til stærsta þjóðgarð í Evrópu. Mynd/Stjórnarráðið

Stjórnvöld eru að leggja drög að stofnun hálendisþjóðgarðs og Þjóðgarðastofnun, en Í stefnuyfirlýsingu núverandi ríkisstjórnar er kveðið á um stofnun miðhálendisþjóðgarðs. Drög að frumvarpi um Hálendisþjóðgarð og Þjóðagarðastofnun hafa því verið kynnt í samráðsgátt stjórnvalda, en umsagnarfrestur er til 15. janúar nk. Frumvarpið byggir á vinnu nefndar um stofnun þjóðgarðs sem skilaði ráðherra skýrslu sinni í byrjun desember, að því er segir á vef stjórnarráðsins.

Í spurningum og svörum, segir m.a. að markmið með stofnun þjóðgarðs á miðhálendinu eru margþætt, svo sem að vernda náttúru og sögu miðhálendisins og skapa umgjörð um svæðið sem gefur almenningi kost á að kynnast og njóta náttúru þess, menningu og sögu. Þjóðgarðinum er einnig ætlað að efla samfélög og styrkja byggð og atvinnustarfsemi, ekki síst heima í héraði. Hálendisþjóðgarðurinn yrði stærsti þjóðgarður í Evrópu.

Stjórnunar- og verndaráætlanir fyrir stærri friðlýst svæði

Nefnd um stofnun miðhálendisþjóðgarðs hefur lagt til að almenn mörk þjóðgarðsins miðist við landsvæði sem eru í sameign þjóðarinnar, það er þjóðlendum auk svæða sem þegar eru friðlýst innan miðhálendisins. Þessi svæði eru Þjórsárver, Guðlaugs- og Álfgeirstungur, Friðland að Fjallabaki og Hveravellir, auk Vatnajökulsþjóðgarðs sem yrði enn fremur hluti af Hálendisþjóðgarði. Frumvarp ráðherra miðar við hið sama.

Með friðlýsingu landsvæðis er sérstaða þess og náttúruverndargildi dregið fram og settar reglur um hvernig fara skuli með svæðið. Á mörgum friðlýstum svæðum starfa landverðir sem vinna við að vernda, stýra, fræða og upplýsa gesti. Stjórnunar- og verndaráætlanir eru settar fyrir stærri friðlýst svæði í víðtæku samráði við sveitarstjórnir og hagaðila og þannig myndast markviss umgjörð utan um vernd svæðisins og starfsemi innan þess.