Harma ummæli: „Svona á maður ekki að tala um fólk“

Tveir þingmenn Miðflokksins og Flokks fólksins, þeir Bergþór Ólason og Karl Gauti Hjaltason, hafa sent frá sér yfirlýsingar í kjölfar frétta DV/Eyjunnar og Stundarinnar af gleðskap sex alþingismanna á skemmtistað og umræðum sem virðast hafa verið hljóðritaðar án þeirra vitundar og lekið til fjölmiðla. Þar voru ýmis óviðurkvæmileg ummæli höfð frammi, ekki síst í garð Ingu Sæland, formanns Flokks fólksins.

Bergþór Ólason segir:

„Í kvöld hafa verið fluttar fréttir af hittingi sex þingmanna á hótelbar í liðinni viku. Eins og fram hefur komið varð mér þar hressilega á í messunni hvað munnsöfnuð varðar, í garð manneskju sem hafði ekkert sér til sakar unnið til að verðskulda þá yfirhalningu. Þar virðist ég hafa notað orðfæri sem er mér framandi og ég veit ekki til að ég hafi áður notað.

Ég ræddi við Ingu Sæland í kvöld og bað hana afsökunar á framgöngu minni. Um samstarfið við Flokk fólksins vil ég segja að það hefur verið með miklum ágætum síðasta árið, enda málefnalegur samhljómur um marga hluti. 

Flest þekkjum við að hafa í lokuðu rými talað óvarlega, og jafnvel af ósanngirni um annað fólk, þá sérstaklega þegar öl er haft um hönd, en það breytir því ekki að svona á maður ekki að tala um fólk.“

Og Karl Gauti segir:

„Ég harma ummæli sem ég lét falla á veitingastað fyrir stuttu síðan og hafa birst í nokkrum fjölmiðlum. Af því tilefni vil ég taka fram að ég er ekki á förum úr Flokki fólksins, styð stefnu flokksins og ber traust til formanns hans, Ingu Sæland. 

Við höfum unnið að einurð fyrir kjósendur okkar og lagt fram mörg góð mál sem við hétum því að vinna að.“