Hefnd lýðræðisins

Nú er það komið á hreint. Nú vitum við hvað gerist þegar menn fara í slag við lýðræðið. Nú vitum við afleiðingar þess að hunsa stærstu lýðræðislegu atkvæðagreiðslu í sögu Bretlands. Nú vitum við hvað verður um stjórnmálastétt sem fitjar upp á trýnið og þaggar niður í lýðræðisrödd kjósenda, og uppnefnir þá rasista og illa upplýsta útlendingahatara, sem ekki er hægt að treysta til að taka ákvarðanir fyrir hönd þjóðarinnar. Þeim verður refsað. Þeir fá uppreisn í fangið. Þeim verður skipt út. Í fyrrakvöld, við þessa óvenjulegu niðurstöðu þingkosninganna, urðum við vitni að hefnd lýðræðisins.

Þessa grein skrifar Brendan O’Neil, ritstjóri Spiked í gær, og Viljinn þýddi.

Maður þarf ekki að vera aðdáandi Boris Johnson, eða BREXIT sáttmála hans, til að kunna að meta mikilvægi, og jafnvel ljóma atburðanna í gær. Niðurstaðan er sláandi, sögulega séð. Verkamannaflokkurinn hlaut mestu rassskellingu í áratugi og Íhaldsflokkurinn vann öflugan meirihluta, sem ekki var útséð um að yrði, síðustu dagana fyrir kosningar. Mest sláandi af öllu hefur verið niðurbrot, hrun í raun, „rauða múrins“ – hins sögulega landslags rauðra kjördæma – sem teygja sig frá Norður-Wales um Norður-England. Jæja, það er ekki rautt lengur: múrsteinn eftir múrstein hefur hrunið úr honum, og mikill fjöldi fólks, sem kaus Verkamannaflokkinn í áratugi, hefur snúist á sveif með Íhaldsflokknum.

Rauði múrinn ekki aðeins brotinn – heldur rifinn til grunna

Stockton South, Darlington, Wrexham – nú allt íhaldssæti á þinginu. Jafnvel að segja það hljómar skringilega. Bolsover, sem Dennis Skinner hefur haldið síðan árið 1970, er nú með yfir fimmþúsund atkvæða íhaldsmeirihluta. Fyrrum námuvinnsluborgir, sem lengi hafa haft ímugust á Íhaldsflokknum – Bishop Auckland, Sedgefield – eru orðnar bláar. Íhaldsþingmaður Bishop Auckland – hin 25 ára Hull-menntaða Dehenna Davison – er sá fyrsti sem íhaldsflokkurinn hefur átt þar í 134 ára sögu flokksins. Don Valley er einnig fallin, þrátt fyrir ákafa viðleitni þingmannsins Caroline Flint til að vara flokk sinn við því að svik hans við verkalýðsstéttina, kjósendur sem styðja BREXIT, yrðu honum dýrkeypt. Múrinn hefur ekki aðeins verið brotinn – hann hefur verið rifinn til grunna.

Hrun „rauða múrsins“ er mikilvægasta og skýrasta táknið í þessum kosningum, vegna þess að það sýnir, skýrt og greinilega, uppreisnareðlið í höfnun kjósenda á íveru-elítunni (e. Remainer elites). verkalýðs samfélögin hafa verið skotmark fyrirlitningar elítunnar á BREXIT-kjósendum. Þegar maður heyrði frjálslyndar elítu-sleikjur ESB eða áberandi róttæklinga góðborgaralegra Corbynista, harma „upplýsingaskort“ og að lýðurinn hefði verið gabbaður til að kjósa BREXIT, þá var það þetta fólk sem þeir voru að tala um. Í Blackpool South, í Vale of Clwyd, í Workington – nú allt íhaldsþingsæti. Þessi eitraða fyrirlitning beindist beinlínis að fólkinu sem nú hefur brugðist við. Þau hafa skilað þungum byrðum fyrirlitningarinnar sem beinst hefur að þeim undanfarin þrjú og hálft ár.

Uppreisn gegn dilkadrætti, fyrirlitningu og and-lýðræði

Uppreisn rauða múrsins gegn Verkamannaflokknum er tímamótaviðburður. Vinnandi fólk hafnar gamalli trú um að þau myndu kjósa rollu svo lengi sem hún skartaði rauðri rós. Venjulegt fólk gerði uppreisn gegn ný-aristókratisma millistéttanna, sem snobba fyrir dilkadrætti fólks á öllum sviðum (e. woke, identity politics), og hafa rænt þau flokknum sem forfeður þeirra stofnuðu. Þetta er einnig uppreisn gegn and-lýðræði. Í meira en þrjú ár hefur stjórnmálaelítan att sér gegn stærstu lýðræðislegu atkvæðagreiðslu í sögu landsins. Hún hefur notað hvert lagalegt og þinglegt bragð í bókinni til að koma í veg fyrir eða seinka BREXIT. Nú hefur fólk dæmt þessa smánarlegu hegðun með hefnd lýðræðisins.

Jo Swinson.

Að ímynda sér fáránlega, valdboðsímynd Jo Swinson, leiðtoga Frjálslyndra. Hún missti þingsætið. Hún sagði til fjandans með BREXIT, og fólkið sagði til fjandans með þig. Rétt eins og þeir gerðu við marga íveru-þingmenn sem reyndu að stöðva lýðræðið. Viti menn – fólk tekur atkvæðið sitt alvarlega. Það veit að hart var barist fyrir því. Það veit að fólk baslaði og dó jafnvel fyrir kjörseðilinn, sem gerir öllum frjálsum fullorðnum borgurum kleift að ákvarða lögun og eðli stjórnvalda. Það tekur því ekki vel að grafið sé undan honum, hvort sem það er gert af ESB eða okkar eigin andlýðræðislegu yfirstétt hérna í Bretlandi.

Snúist gegn fúllyndu vinstrinu og skrifræðiselítunni

Nú þegar er vinstrisinnuð elítan farin að jarma yfir því að niðurstaða kosninganna sé verk rasískra hálfvita. Hún fullyrðir að heimskir kjósendur séu enn í vitsmunalegu kverkataki illra götublaða og lýðskrumara. Þau ætla aldrei að læra. Þetta er einmitt sú fyrirlitning sem varð til þess að fólk snérist gegn fúllyndu vinstrinu og skrifræðiselítunni. Mest um vert, kosningarnar í fyrradag sýna hið gagnstæðu þess sem þessir andlýðræðissinnar fullyrða. Þær sýna að fólk getur hugsað sjálfstætt. Í þrjú ár hefur verið lamið á fólki með yfirdrifnum hræðsluáróðri og móðursýkislegum viðvörunum um hættuna af BREXIT. Með varnarleysi efnahagslífs og opinberrar þjónustu ef við færum popúlísku leiðina. „Við munum gæta þín með því að stöðva BREXIT og gera rétt“, fullvissuðu stjórnmálamennirnir fólk. Fólkið hafnaði þessari forsjárhyggju. Það hugsaði sjálft og sagði: Nei takk! Það var sjálfstætt hugsandi fólk.

Það er verk að vinna við að tryggja að Boris standi við BREXIT. Við munum komast þangað. Enn sem komið er skulum við muna og fagna því sem þessar kosningar minna okkur á: að lýðræðið er og verður besta vopnið gegn elítisma og harðstjórn sem mannkynið hefur fundið upp á.