Heilagur Þorlákur Þórhallsson er verndardýrlingur Íslands

Þorlákur helgi. Hluti af steindum glugga í kapellu í Lincoln. Jóhannes Páll II. páfi útnefndi Þorlák verndardýrling Íslands.

„Heilagur Þorlákur Þórhallsson fæddist 1133 og tók ungur prestsvígslu. Hann varði um áratug ævi sinnar erlendis og nam guðleg fræði í París og í Lincoln á Englandi. Er hann kom heim 1166 stóð hann að stofnun klausturreglu sem kennd er við heilagan Ágústínus og gerðist príor samfélags hennar í Þykkvabæ. Síðar varð hann ábóti reglunnar,“ segir Sr. Þórir Jökull Þorsteinsson, prestur Íslendinga í Noregi, í samtali við Viljann.

Þórir Jökull er spurður út í Þorláksmessuna, sem er í dag og söguna á bak við hana:

Sr. Þórir Jökull Þorsteinsson.

„Ég var eitt sinn í prestsþjónustu í Ensku kirkjunni. Biskup minn var David Tustin af Grimsby. Hann var elskur að mörgu norrænu og heilsaði mér alltaf á íslensku. Sæll og blessaður! Hann sagðist minnast heilags Þorláks á báðum messudögum hans – Þorláksmessu ađ sumri og vetri,“ segir Þórir.

„Biskup varð Þorlákur í Skálholti 1178 og hélt í biskupsdómi áfram að lifa að hætti klausturreglu sinnar. Hann var harðsnúinn baráttumaður fyrir sjálfstæði kirkjunnar og eindrægur hvað varðaði vegsemd kristninnar í landinu. Í því efni beitti hann sér fyrir bættum siðum prestanna og því að sæmd hjónabandsins væri í heiðri höfð.

Kirkjan efldist á Íslandi í biskupstíð hans og naut starfa hans lengi eftir að hann var allur. Hann andaðist 23. desember 1193 og er í helgra manna tölu eins og það er kallað. Þorláksmessa er víðar í almanaki kirkna en á Íslandi, t.d. á Englandi,“ segir Sr. Þórir Jökull.

Hlakkaði til Þorláksmessu eins og jólanna

Í Sögu daganna eftir Árna Björnsson þjóðháttafræðing, segir:

„Enda þótt sjálf jólahátíðin hæfist ekki fyrr en á miðjum aftni á aðfangadag, var undirbúningur hennar á fullu skriði dagana áður. Þá þurfti að ljúka við að þrífa bæinn hátt og lágt, þvo rúmföt og nærföt. Þá voru og seinustu forvöð að steypa jólakertin. Alsiða var að sjóða jólahangiketið á Þorláksmessu og sumstaðar var fólki leyft að bragða á því eða hangiflotinu. Allt þetta tilstand olli því að fólk hlakkaði til Þorláksmessunnar líkt og sjálfra jólanna. Af þeim sökum var dagurinn fyrir Þorláksmessu sumstaðar kallaður hlakkandi.

Smáflís af hangiketi var þó ekki sá matur sem almennt einkenndi Þorláksmessu. Auk sjálfs messudagsins var hún síðasti heili dagur jólaföstu og því tvöföld ástæða í katólskum sið til að neyta einna síst kjötmetis á þeim degi. Leifar af þeirri venju virðast hafa haldist eftir siðaskipti með þeim hætti að þá skyldi öðru fremur borða lélegan fisk. Það hjálpaði ugglaust til að viðeigandi þótti að hafa viðbrigðin sem mest frá rýrum föstumat að kræsingum jólakvöldsins daginn eftir. Þar sem fiskur var ekki tiltækur sést getið um bjúgu úr mör og lungum eða stórgripabein. Af fiskmeti eru meðal annars nefndir megringar sem var magur harðfiskur soðinn, steinbítsroð, hákarl eða vel úldin ýsa. Til bragðbætis var þetta þó stundum hitað upp í hangiketssoðinu. 

Þekktasti réttur á Þorláksmessu er auðvitað skata sem áður fyrr mun hvergi hafa þótt neitt lostæti. Á haustin veiðist skatan aðallega við Breiðafjörð og á Vestfjörðum, en haustvertíðinni lauk einmitt á Þorláksmessu. Á þeim slóðum höfðu menn því fengið meira en nægju sína af henni þegar kom að jólum og ekki nema eðlilegt að skata væri upphaflega hugsuð sem andstæða við jólakræsingarnar. Hún minnir á lútfiskinn í Svíþjóð og vatnakarfann sem víða í Austurevrópu var og er hefðbundinn matur á aðfangadag.Svo fór þó með tímanum að fólk lærði að gera sér gott af skötunni og sumum fór að þykja hún ómissandi þáttur í jólahaldinu. Vestfirðingar bjuggu til stöppu úr kæstri skötu og mörfloti. Hún var síðan sneidd niður og stundum var reyktum bringukolli eða fuglsbringu hvolft yfir stöppudiskinn.

Mörgum þótti lyktin af skötustöppunni fyrsta ákennilega merki þess að jólin væru að nálgast. Utan Vestfjarða var skatan sumstaðar elduð í hangiketssoðinu eða stöppuð saman við hangiflot.“