Helförin var hátindur gamalgróins gyðingahaturs

Þarna hafði líkum fórnarlamba Helfararinnar verið staflað á vörubílspall. Þrátt fyrir hörmungar stríðsins trúði fólk varla sínum eigin augum þegar myndir fóru að berast af grimmdarverkunum í útrýmingarbúðunum nasista.


Í gær var þess minnst um heim allan að 75 ár eru liðin frá lokum helfararinnar. Miðað er við þann 27. janúar 1945, þegar sovéskar hersveitir frelsuðu fanga í Auschwitz-Birkenau útrýmingarbúðunum í Póllandi.

Rósa Björk Brynjólfsdóttir.

Rósa Björk Brynj­ólfs­dótt­ir, þingmaður Vinstri grænna, mun í vik­unni leggja fram þings­álykt­un­ar­til­lögu um að fela rík­is­stjórn­inni að standa fyr­ir minn­ing­ar­degi um hel­för gyðinga. Hún sagði Ísland vera hið eina af 57 ríkj­um Örygg­is- og sam­vinnu­stofn­un­ar Evr­ópu (ÖSE), þar sem helfar­ar­inn­ar er ekki minnst op­in­berlega, en það kom fram í Morgunblaðinu í gær.

„Það er hættuleg villa að halda að Helförin hafi einfaldlega verið árangur geðbilunar glæpahóps nasista. Þvert á móti var helförin hátindur þess sem nú er kallað gyðingahatur eða árþúsunda gamals haturs þar sem gyðingar voru gerðir að blórabögglum og mismunað,“ sagði aðalframkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna, António Guterres, í ávarpi í tilefni af Alþjóðlegum minningardegi um fórnarlömb Helfararinnar, en frá því segir á vef Sameinuðu þjóðanna.

Minningardagurinn er haldinn 27. janúar ár hvert, og í ávarpi sínu minnti hann á að jafnvel eftir að hörmungar Helfararinnar urðu öllum ljósar, sé gyðingahatur enn þrálátt.

„Stundum tekur það á sig nýjar myndir og finnur sér farvegi með nýrri tækni, en það er alltaf sama gamla hatrið. Við megum aldrei sofna á verðinum. Undanfarin ár höfum við horft upp á aukningu árása sem rekja má til gyðingahaturs bæði í Evrópu og Bandaríkjunum, sem er hluti af ógnvekjandi uppgangi útlendingahaturs, hommahaturs, mismununar og haturs af ýmsu tagi. Jafnvel nasismanum vex fiskur um hrygg, stundum opinskátt, stundum í dulargervi.”

Gyðingar voru ekki einir um að vera pyntaðir og myrtir skipulega í útrýmingarbúðum nasista, þó þeir hafi verið langfjölmennasti hópurinn. Einnig voru samkynhneigðir, slavar, róma-fólk, fatlaðir, geðveikir og þeir sem voru stimplaðir óvinir þriðja ríkisins fyrir trú eða skoðanir, kvaldir og teknir af lífi í útrýmingarbúðum nasista. Sem dæmi voru Vottar Jehóva ofsóttir og sendir í útrýmingarbúðir, fyrir að neita að þjóna þriðja ríkinu og heilsa að sið nasista, en trú þótti ógna tryggð við ríkisvaldið.