Herskáar yfirlýsingar um stéttabaráttu eru endurómur fyrri tíma

Óli Björn Kárason, þingmaður Sjálfstæðisflokksins.

Síðustu ár hafa verið Íslendingum sérlega hagfelld í flestu. Staða ríkissjóðs er sterk og kaupmáttur launa hefur aldrei verið meiri. Lífskjör langflestra landsmanna hafa batnað verulega þótt enn glími sumir við fjárhagslega erfiðleika. Markmiðið komandi kjarasamninga hlýtur fyrst og síðast að miða að því að styrkja stöðu þeirra sem lakast standa um leið og stöðugleiki síðustu ára er endanlega festur í sessi.

Þetta segir Óli Björn Kárason, þingmaður Sjálfstæðisflokksins. Hann fer í nýjum pistli mjög rækilega yfir efnahagsþróun hér á landi á umliðnum áratugum, frá dögum óðaverðbólgu og sjálfvirkrar víxlverkunar launa og verðlags og yfir í aukinn stöðugleika okkar daga með miklum hagvexti og stórbættum lífskjörum.

„Í velgengni felast hins vegar hættur og gamlar grillur fá stundum nýja vængi. Herskáar yfirlýsingar um stéttabaráttu eru endurómur fyrri tíma. Athafnamenn og fyrirtæki eru tortryggð. Kapítalismi – frjáls markaðsbúskapur – með sínum „endalausa hagvexti“, er sagður leiða Íslendinga og mannkynið allt til glötunar. Vegna þessa er því haldið fram að koma verði böndum á frjáls viðskipti og takmarka hinn „endalausa hagvöxt“. Þegar horft er á hálf tómt glasið blasa endimörg hagvaxtarins við,“ segir hann.

Verri lífskjör án hagvaxtar

Óli Björn færir tölfræðileg rök fyrir því að hagvöxtur hafi gert okkur Íslendingum kleift að bæta lífskjörin. Án hans hefðu þau versnað.

„Velferðarkerfið stæði á brauðfótum. Möguleikar okkar að halda úti öflugu samtryggingakerfi, heilbrigðis- og menntakerfi væru ekki fyrir hendi.

Bætt lífskjör samfélaga verða ekki sótt annað en í auka verðmætasköpun – hagvöxt. Stöðnun eða minni aukning verðmætasköpunar, en nemur fjölgun íbúanna, leiðir til lakari kjara. Kökusneiðin sem kemur í hlut hvers og eins verður minni.

Þeir sem alltaf sjá glasið hálftómt eiga erfitt með átta sig á eðli frjáls markaðar og skynja ekki hugvit mannsins sem er ótakmörkuð auðlind. Skilja ekki samhengið milli framboðs og eftirspurnar, hvernig verð leikur þar lykilhlutverk.

Þegar horft er á hálf tómt glasið blasa endimörg hagvaxtarins við

Hugmyndasmiðir sem tala af fyrirlitningu um hinn „vonda hagvöxt“ kapítalismans hafa alltaf verið blindir á drifkraft mannshugans og framþróun í vísindum og tækni. Hafa aldrei komist til botns í því hvernig frjálsum markaði tekst stöðugt að finna hagkvæmari leiðir til framleiða lífsgæðin.

Dómdagsspámenn sjá ekki tækifæri framtíðarinnar. Dökk óveðursský byrgja þeim sýn. Við því er lítið að gera annað en koma í veg fyrir að þeir hafi hvorki áhrif á stefnu stjórnvalda eða á störf aðila vinnumarkaðarins á hverjum tíma,“ skrifar Óli Björn.

Sjá pistil hans í heild sinni.