Sá leiði misskilningur virðist vera í umferð, og það jafnvel hjá vísindamönnum, sbr. fullyrðingu Elínar Bjarkar Jónasdóttur, veðurfræðings, á Borgarafundi Kastljóss í fyrradag, að 97% (loftslags) vísindamanna séu sammála um að hlýnun jarðarinnar sé af mannavöldum.
Blaðamaður DV tekur undir með henni í frétt í dag og vísar í upplýsingar á heimasíðu Bandarísku geimferðastofnunarinnar, (NASA), um málið. Það er því kannski ekki að undra að þessi þjóðsaga fljúgi fjöllunum hærra. En NASA liggur undir ámæli fyrir að hafa ekki tekið þessar upplýsingar niður – en Samkeppnisstofnunin CEI hefur krafist þess að NASA fjarlægi þær af heimasíðunni, og úr útgefnu efni sínu, á grundvelli bandarískra laga um gæði upplýsinga. Fullyrðingin hafi „stórkostlega galla“, sem staðfestir hafi verið af gagnrýnendum.
Af hverju stafar þessi leiði misskilningur?
Saga málsins er sú, að vísindamaður að nafni John Cook, sem vinnur hjá Samskiptamiðstöð um loftslagsmál (e. Center for Climate Change Communication) hjá George Mason háskólanum, safnaði, ásamt rannsóknarhópi sínum, öllum útgefnum, ritrýndum vísindagreinum frá árinu 1991 til ársins 2011, sem innihalda efni um hlýnun jarðar eða loftslagsbreytingar. Samtals voru þetta 11.944 vísindagreinar. Cook og rannsóknarteymi hans, skoðuðu einungis titla og úrdrætti vísindagreinanna í þessari rannsókn, og flokkuðu þær í eftirfarandi flokka um það hvort um væri að ræða:
- Afgerandi ályktað að hlýnun jarðar sé af mannavöldum með magngreiningum, 64.
- Afgerandi ályktað að hlýnun jarðar sé af mannavöldum án magngreininga, 922.
- Óbein ályktað að hlýnun jarðar sé af mannavöldum, 2.910.
- Engin afstaða tekin um hvort hlýnun jarðar sé af mannavöldum, 7.930.
- Óvissa um hvort hlýnun jarðar sé af mannavöldum, 40.
- Óbeint hafnað að hlýnun jarðarinnar sé af mannavöldum, 54.
- Afgerandi hafnað að hlýnun jarðar sé af mannavöldum með magngreiningum, 15.
- Afgerandi hafnað að hlýnun jarðar sé af mannavöldum án magngreininga, 9.
Í niðurstöðu þessarar rannsóknar Cook og félaga, voru lagðir saman fyrstu þrír flokkarnir (3.896 greinar) og samtalan borin saman við summu síðustu þriggja flokkanna (78 greinar) auk þeirra greina sem tjáðu óvissu (40 greinar).
Í stuttu máli, voru þetta 4.014 vísindagreinar (3896 + 78 + 40 = 4014), sem settu fram eða gáfu í skyn, afstöðu til hlýnunar jarðarinnar af mannavöldum. Þannig fékkst fram sú niðurstaða, að 97% af útdráttum vísindagreina þar sem afstaða var tekin, álykti að hlýnun jarðarinnar sé af mannavöldum.
En þessi samtala tók ekki með í reikninginn þær 7.930 vísindagreinar, eða 66,4% allra vísindagreinanna í rannsókninni, sem ekki tóku afstöðu til þess hvort að hlýnun jarðarinnar sé af mannavöldum.
Einungis þriðjungur ályktaði að loftslagsbreytingar séu af mannavöldum
Raunveruleg niðurstaða er því sú, að aðeins þriðjungur allra vísindagreinanna sem fjölluðu um loftslagsmál eða hlýnun jarðarinnar, eða 33,3%, ályktuðu, beint eða óbeint, að hlýnun jarðarinnar sé af mannavöldum.
Einungis 8,2% ályktuðu með afgerandi hætti að hlýnun jarðarinnar sé af mannavöldum.
Nánar má lesa um rannsóknina hér.
Niðurstaða málsins er því sú, að um ekkert slíkt er að ræða eins og það, að 97% vísindamanna, eða loftslagsvísindamanna, séu sammála um að hlýnun jarðarinnar sé af mannavöldum. En það læðist að manni sá grunur að þessi leiði misskilningur falli ágætlega málstað þeirra sem af óskiljanlegum ástæðum vona að svo sé.