„Það er gullvæg regla að fara vel með það sem manni er treyst fyrir. Þessa reglu ættu ráðamenn landsins að festa í hjarta sér þegar þeir taka við embættum sínum. Þannig á ráðherra að láta sér annt um málaflokkinn sem honum er trúað fyrir og gera sér grein fyrir ábyrgð sinni, en ekki umvefja sig hroka og tala niður til fólks mæti hann mótbyr í starfi.“
Þetta segir Kolbrún Bergþórsdóttir í leiðara í Fréttablaðinu í dag, undir fyrirsögninni Ráðherrahroki, en ekki verður annað séð en hún velti því upp hvort Svandís Svavarsdóttir, heilbrigðisráðherra, sé starfi sínu vaxin, eftir viðbrögð hennar við vandræðum sjúklinga og starfsfólks á Landspítalanum.
Ummæli ráðherra vöktu undrun og hneykslan í vikunni þegar hún sagði á fundi Læknaráðs, eftir að hafa hlustað á áhyggjur nefndarmanna af neyðarástandi á bráðamóttöku Landspítalans: „Það er töluverð áskorun fyrir ráðherra að standa með Landspítala þegar koma ályktanir á færibandi sem tala um að þessi stofnun sé nánast hættuleg.“
Skylda heilbrigðisstarfsfólks er fyrst og fremst við sjúklinga
„Svandís gefur með orðum sínum sterklega í skyn að nær ómögulegt sé fyrir hana að vera hliðholl spítalanum vegna þess að starfsmenn þar séu stöðugt að kvarta undan slæmu ástandi og aðbúnaði á vinnustaðnum“, heldur Kolbrún áfram og spyr hvaðan heilbrigðisráðherrann hafi þær hugmyndir að heilbrigðisstarfsmenn eigi ekki að vekja athygli á slæmum aðbúnaði sem kemur niður á þjónustu við sjúklinga.
„Slíkar athugasemdir eru vissulega óþægilegar fyrir Svandísi sem ráðherra heilbrigðismála í landinu, en varla getur hún ætlast til að heilbrigðisstarfsmenn taki tillit til þess hvað henti henni að heyra og hvað ekki. Skylda þeirra er að standa með sjúklingunum og vakta velferð þeirra.“
Kolbrún segir ráðherra hafa sýnt fundarmönnum óvirðingu.
„Þeir voru komnir til að ná eyrum hennar en hún talaði til þeirra eins og væru þeir hópur af vandræðagemlingum sem hefðu það helsta markmið að gera henni erfitt fyrir í starfi sínu. Ýmsir hafa svo skilið orð hennar sem hótun, enda þarf svosem ekki mikið ímyndunarafl til þess.“