„Vikan sem nú er að líða hefur einkennst af umræðum um húsnæðismál enda styttist í að samráðsnefnd skili niðurstöðum. Húsnæðismál eru eitt stærsta kjaramálið og til mikils að vinna að ná að snúa þeirri þróun við að markaðurinn hafi það í hendi sér hversu mikið er byggt, fyrir hverja og hver kostnaðurinn af húsnæði sé.
Nú nýtum við vonandi tækifærið til að laga það sem betur má fara í almenna íbúðakerfinu. Lækkum byggingar- og vaxtakostnað og fjölgum góðum íbúðum á sæmilegu verði til að styðja við félagslegar lausnir. Þetta er eitt stærsta mannréttindamálið á Íslandi í dag. Það er löngu kominn tími til að húsnæðismarkaðurinn hirði ekki allar launahækkanir sem samið er um,“ segir Drífa Snædal, forseti ASÍ, í vikulegum pistli sínum sem birtist á vef samtakanna.
Hún segir samningaviðræður í fullum gangi . „Er fundað víða um borgina enda ótrúlegur fjöldi fólks sem kemur á einn eða annan hátt að samningsgerðinni. Næstu dagar og vikur munu ráða úrslitum um hvort og hvenær samningar nást. Allt hefur áhrif á þessum tímapunkti bæði til hins betra og til hins verra.
Hvorki leiðaraskrif þar sem fulltrúum verkalýðshreyfingarinnar er líkt við Trump né hótanir um að selja banka í ríkiseigu verða til þess að leysa kjaradeiluna, svo það sé sagt,“ segir Drífa og vitnar þar til leiðara Fréttablaðsins í morgun, sem Viljinn hefur sagt frá.