Hundrað ára starf íslenskra frímúrara

Frá Þingvallaför Eddubræðra á árum áður.

Á þessu starfsári minnast Frímúrarabræður á Íslandi þess að liðin eru hundrað ár frá því að Jóhannesarstúkan Edda var vígð og reglulegt stúkustarf hófst hér á landi, en það var 6. janúar 1919.

Þessa hefur verið minnst og verður minnst með ýmsum hætti innan frímúrarareglunnar, að því er frá greinir í nýjasta hefti Frímúrarans.

Hinn 13. nóvember sl. var haldinn svonefndur danskur fundur í Eddu þar sem fundarsetning og fundarslit voru á dönsku en siðabækur þær sem hingað bárust 1918 voru notaðar á fundinum.

Á Regluhátíð 12. janúar sl. var meginstefið hundrað ára frímúrarastarf á Íslandi.

Valur Valsson er stórmeistari reglunnar hér á landi.

Þá verður hátíðarstúka sett í Eddu 9. mars nk og 100 ára afmælis stúkunnar minnst.

Hinn 7. apríl verður hátíðarsamkoma Reglunnar í Eldborgarsal Hörpu sem ætluð er bræðrum og systrum.

Þar verður 100 ára reglustarfs minnst í tali og tónum.

Í stúkuhúsum utan Reykjavíkur mun verða opið fyrir gesti og starf frímúrara kynnt. 

Loks verður opið hús í Regluheimilinu á menningarnótt 2019.

Regluheimili Frímúrarahreyfingarinnar í Reykjavík. / Ljósmynd: Jón Svavarsson.

Í tilefni afmælisins koma út tvær bækur. Leitandinn, bók um Ludvig Emil Kaaaber sem Jón Sigurðsson, fv. ráðherra og rektor, hefur skrifað og Undir Stjörnuhimni, veglegt safn greina um sögu og margvíslegar hliðar frímúrarastarfs.

Grundvallaratriði að játast kristna trú

Frímúr­ar­a­reglan á Íslandi var stofnuð þann 23. júlí árið 1951 en fyrsta frímúr­ara­stúkan var stofnuð hér á landi 6. janúar 1919; það var St. Jóh.stúkan Edda, innan Den Danske Frimurer­orden, og starfaði undir hennar vernd allt þar til formleg og sjálfstæð regla var stofnuð.

Frímúr­ar­a­reglan á Íslandi er engum öðrum valdhöfum háð en löglegum yfirvöldum Íslands.

Prúðbúnir bræður fyrir framan regluheimilið á Akureyri, sem er ein fegursta bygging landsins. Ljósmynd: Jón Þór Hannesson.

„Trúnað­urinn sem yfir fundarsiðunum hvílir má segja að helgist fyrst og fremst af því að ef þeir væru öllum kunnir myndu fundir missa marks að verulegu leyti. Hér á landi er starfað eftir hinu svokallaða sænska kerfi en grund­vall­ar­atriði í því er að innsækjandi í regluna játi kristna trú.

Óhætt er að segja að félagar í Frímúr­ar­a­reglunni á Íslandi séu þverskurður af þjóðfé­laginu. Þeir eru hvorki betri né verri en aðrir þjóðfé­lags­þegnar og líta ekki á sig sem slíka en markmiðið með veru sinni í Reglunni telja þeir vera að reyna að verða betri þjóðfé­lags­þegnar til hagsbóta fyrir sjálfa sig, fjölskyldu sína og þjóðfé­lagið í heild.

Innan Frímúr­ar­a­regl­unnar á Íslandi rúmast allir góðir menn sem eru tilbúnir að játast undir þær skuld­bind­ingar sem Reglan setur þeim og standa við þær,“ segir á heimasíðu reglunnar.