Skilaboð fimmhundruð alþjóðlegra vísindamanna, verkfræðinga og annarra aðila um að „ekkert neyðarástand sé í loftslagsmálum“, köfnuðu í fjölmiðlaathyglinni í kringum Gretu Thunberg á ráðstefnu Sameinuðu þjóðanna (SÞ) um loftslagsmál í síðustu viku. Samevrópsk yfirlýsing um loftslagsmál, leidd af loftslagsstofnuninni CLINTEL í Amsterdam, sagði að helstu reiknilíkön sem notast er við til að spá fyrir um framvindu loftslagsmála séu „ónothæf“, og hvatti aðalritara SÞ, Antonio Guterres, til að byggja stefnu SÞ í loftslagsmálum á „alvöru vísindum.“
Frá þessu var greint í The Washington Times í gær.
„Núverandi stefna í loftslagsmálum grefur alvarlega og tilgangslaust undan hagkerfum heimsins, og setur þar með líf fólks í hættu, með því að neita þeim um örugga raforku á verði sem þau ráða við“, er á meðal þess sem segir í bréfinu, dags. 23. september 2019. Bréfið er undirritað af sérfræðingum frá 23 löndum, flestum evrópskum, en nokkrir eru frá Bandaríkjunum, Kanada, Ástralíu, Nýja-Sjálandi og Suður-Ameríku.
„Við viljum hvetja þig til að fylgja loftslagsstefnu sem byggir á alvöru vísindum, raunhæfri hagfræði og alvöru umhyggju fyrir þeim sem verða illa úti við kostnaðarsamar og ónauðsynlegar aðgerðir sem ætlað er að stemma stigu við loftslagsbreytingum“, var á meðal þess sem segir í bréfinu.
Í téðri yfirlýsingu var lögð áhersla á eftirtalda sex punkta:
- Auk áhrifa mannsins eru nátturulegar orsakir fyrir hlýnun á jörðinni.
- Hlýnun jarðarinnar er mun hægari en spáð hefur verið.
- Stefna í loftslagsmálum byggir á óáreiðanlegum reiknilíkönum.
- Koldíoxíð er næring plantna, og grundvöllur alls lífs á jörðinni.
- Hlýnun jarðarinnar hefur ekki haft áhrif til aukningar náttúruhamfara.
- Stefna í loftslagsmálum þarf að virða vísindalegan og efnahagslegan raunveruleika.
Bréfritarar biðluðu til Guterres að setja yfirlýsingu þeirra á dagskrá fundarins sem endaði á mánudaginn, og skipuleggja pallborð þar sem vísindamönnum gefst kostur á að ræða fleiri sjónarmið í loftslagsmálum, en án árangurs. Þeir gagnrýndu að einungis sé hlustað á einhliða málflutning í loftslagsmálum og kölluðu það „grimmilegt og ósiðlegt að sóa milljörðum dollara á grundvelli niðurstaðna ónothæfra reiknilíkana“.
Nöfn þeirra sem undirrita yfirlýsinguna má finna hér.