Pólitík er stundum furðulegt fyrirbæri. Hægt er að nefna ótal dæmi því til sönnunar. Til dæmis er Samfylkingin í frjálsu falli eftir að hafa kúvent og tekið upp róttæka vinstrimennsku og hent út flestu af sínu besta fólki en komið í staðinn fyrir flokkaflökkurum og kverúlöntum í lykilstöður. Nú virðist Viðreisn á sömu leið; þar logar allt stafnanna á milli og sjálfur stofnandi flokksins, Benedikt Jóhannesson, kveikir loga hvar sem hann fer með kyndli sínum og ásökunum í garð eftirmanns síns, Þorgerðar Katrínar Gunnarsdóttur.
Benedikt er annar stofnandi flokks sem á skömmum tíma upplifir það að vera hafnað af sínu eigin afkvæmi. Fræg eru sambærileg örlög Guðmundar Steingrímssonar í Bjartri framtíð. Báðir töldu illa að sér vegið, eflaust réttilega í ýmsu, en því er ekki að leyna að persónulegur metnaður beggja virðist ekki fyllilega í samræmi við þá spurn sem eftir þeim er á hinu pólitíska sviði.
Þannig er alveg óumdeilt að Þorgerður Katrín tók við formennsku í Viðreisn þegar fylgið var komið niður fyrir það sem léttur bjór telst vera að áfengismagni. Ýmsar ákvarðanir hans og yfirlýsingar höfðu vakið furðu, annað var lítt fallið til vinsælda, eins og þegar hann tilkynnti hróðugur sem fjármálaráðherra að ákveðið hefði verið að banna reiðufé. Allt varð að vonum vitlaust og vinna, sem ráðherrann hafði látið vini sína vinna að mánuðum saman, var dregin til baka samdægurs. Vandræðalegri uppákomur í pólitík eru vandfundnar í seinni tíð.
Þá er líka óumdeilt að Benedikt bauð sig fram sem ráðherra og stofnandi flokksins í Norðausturkjördæmi og náði ekki kjöri. Raunar hlaut hann vandræðalega fá atkvæði og útkomu sem var í engu samræmi við þá þungavigt sem hann telur sig vera í íslenskum stjórnmálum.
Þetta breytir því ekki að Benedikt hefur ýmsa kosti; hann er frjór í hugsun og atorkusamur og Viðreisn er hugarfóstur hans. Flokkurinn sem var búinn til fyrir óánægða alþjóðasinna í Sjálfstæðisflokknum. Viðskiptamenn eins og Helga Magnússon og Þórð Magnússon, sem mjög pólitískir eru í sinni nálgun og vilja hafa meiri áhrif á sitt samfélag en þeir þora almennt að viðurkenna.
Í ýmsu hefur ný forysta fjarlægst þau gildi sem Viðreisn stóð fyrir upphaflega og stefnumál og tekið upp samfylkingarlegri áherslur. Því una hægrimennirnir í flokknum illa. Þeim líður jafn furðulega og öllum krötunum sem hefur verið úthýst úr Samfylkingunni. Því útilokar Benedikt nú ekki að stofna enn einn stjórnmálaflokkinn, en slíkt gæti orðið banabiti Viðreisnar.
Í samfélaginu er nú um stundir nákvæmlega engin stemning fyrir tali um aðild að Evrópusambandinu. Mest er það Evrópusambandinu sjálfu að kenna, enda hefur það algjörlega brugðist hlutverki sínu í stórum málum, til dæmis þegar kemur að COVID-19. Benedikt er Íslendinga áhugasamastur um aðild og líklegt að nýtt framboð á hans vegum myndi róa á slík mið. Hvort fengsæla torfu er að finna meðal íslenskra kjósenda með slíka beitu er vandséð um þessar mundir, en vika er langur tími í pólitík, hvað þá nokkrir mánuðir. Með vaska frambjóðendur og borgaralegar áherslur í þéttbýliskjördæmunum þremur er ýmislegt hægt að gera…