Hvað er hæft í ásökunum sem ganga á víxl milli Samherja og RÚV?

Shanghala ásamt uppljóstraranum Jóhannesi Stefánssyni, fv. framkvæmdastjóra hjá Samherja. / Ljósmynd úr gögnum sem Wikileaks hefur birt.

Ásakanir ganga nú á víxl á milli Samherja annars vegar, og Ríkisútvarpsins (RÚV) og Helga Seljan hins vegar, vegna umfjöllunar Kveiks um starfsemi Samherja í Namibíu.

Samherji hefur sakað RÚV, Stundina og Helga Seljan um uppspuna og ítrekuð ósannindi í umfjöllunum sínum og umræðu um málið, sbr. tilkynningar á vef fyrirtækisins. Samherji hefur jafnframt krafist þess að fréttaflutningur vegna málsins verði leiðréttur.

Núna síðast sakar Samherji RÚV um að vera í herferð gegn fyrirtækinu og allar fréttir um málið beri að skoðast í því ljósi.

Viljinn ákvað því að kafa ofan í umræddar yfirlýsingar og leggja mat á það sem sagt hefur verið.

Ríkisútvarpið svarar fyrir sig og vísar í yfirlýsingu Kveiks

„Fullyrðingar Samherja í tilkynningum fyrirtækisins síðustu daga um meintar rangfærslur RÚV eiga ekki við rök að styðjast og kalla ekki á leiðréttingu eins og fyrirtækið hefur krafist,“ segir í Yfirlýsingu Kveiks, 28. nóvember sl.

Kveikur segir ásakanir Samherja í garð Helga Seljan um ósannindi vera fráleitar. Þetta sé í raun tilraun fyrirtækisins til að afvegaleiða umræðuna með því að „vega persónulega að fréttamanninum og draga úr trúverðugleika hans.“

Þar sem Samherji hafi ítrekað hafnað viðtali við Kveik um efnisatriði málsins hafi ekki reynst unnt að fá svör við fjölmörgum spurningum og að „Alfarið sé litið framhjá þeim upplýsingum og gögnum sem komu fram í þættinum og ummælin byggðust á.“

En hvað hefur verið fullyrt um eignarhald?

Í yfirlýsingu Samherja segir: „Stundin og Ríkisútvarpið hafa fullyrt að Samherji hafi átt félagið Cape Cod FS og að JPC Shipmanagement, sem veitti félögum Samherja þjónustu, hafi „leppað“ eignarhald á Cape Cod FS fyrir Samherja.“ Samherji kveðst aldrei hafa átt Cape Cod FS og rannsókn lögmannsstofu sýni það ennfremur.

Jafnframt segir í yfirlýsingunni að Cape Cod FS hafi verið í eigu JPC Shipmanagement sem þjónustaði félög tengd Samherja um mönnun á skipum í rekstri samstæðunnar. Kaup á þjónustu slíkra félaga sé alþekkt í skiparekstri á alþjóðavísu. Launagreiðslur til sjómanna hafi, vegna gjaldeyrishafta í Namibíu, verið gerðar í gegnum í gegnum Cape Cod FS.

Bæði í Kveiks-þættinum, sem sýndur var 26. nóvember sl. og í umfjöllun Stundarinnar kemur þó fram, m.a. í skjali sem birtist í þættinum, að JPC Shipmanagement, þýskt fyrirtæki á Kýpur sem þjónustar skipaútgerðir, sé móðurfélag Cape Cod FS. Á heimasíðu fyrirtækisins má finna upplýsingar þar sem fyrirtækið býður m.a. upp á aðstoð við að sjá um launagreiðslur til áhafna skipa.

Skjáskot af skjali frá norska bankanum DNB sem birtist í Kveiks-umfjölluninni 26. nóv. sl.

Þrátt fyrir þá vitneskju, virðist hafa þótt ástæða að láta það koma fram sérstaklega í þættinum, sem og í umfjöllun Stundarinnar, að norski bankinn DNB hafi haldið að Cape Cod FS væri í eigu Samherja.

Í Kveiksþættinum kemur fram að norski bankinn DNB hafi talið Cape Cod FS í eigu Samherja, enda hafi starfsmaður fyrirtækisins verið á meðal prókúruhafa reikningsins og stofnandi.

Í Stundinni segir: „[Norski bankinn] DNB segir meira að segja í greiningu sinni á Cape Cod FS að félagið hafi verið „undir Samherja“ en að það sé það ekki lengur.“

Skjáskot úr umfjöllun Stundarinnar.

Fullyrt var í umfjöllun Stundarinnar hér að Samherji hafi átt Cape Cod FS, en svo virðist sem að eldri, órökstuddur grunur DNB bankans um eignarhald fyrirtækisins á Cape Cod FS, hafi verið dreginn inn í umfjöllunina að nauðsynjalausu.

Skjáskot úr umfjöllun Stundarinnar.

Skjáskot að neðan, beinlínis styður að amk. RÚV hafi sagt JPC Shipmanagement virðast hafa „í reynd leppað“ eignarhald á Cape Cod FS fyrir Samherja, en í Kveiks-þætti RÚV segir þó að: svo virðist sem Samherji hafi fengð afnot af Cape Cod FS í gegnum starfsmannaleigu JPC Shipmanagement.

Skjáskot af vef RÚV.

Mögulega er þó eðlilegt að starfsmenn fyrirtækja sem sjá um launagreiðslur til áhafna sé með prókúru á reikningum sem eru notaðir í þeim tilgangi.

Hvað hefur verið fullyrt um fjárhæðir?

Í yfirlýsingu Samherja segir: „Bæði Stundin og Ríkisútvarpið hafa ranglega haldið því fram að um 70 milljónir dollara hafi farið í gegnum Cape Cod FS vegna starfseminnar í Namibíu. Hið rétta er að 28,9 milljónir dollara voru greiddar til félagsins vegna starfseminnar í Namibíu.“

Í Kveiks-þætti RÚV segir að 9,2 milljarðar króna hafi streymt frá Samherjafélögum til Cape Cod FS á meðan það hafi verið í viðskiptum við norska DNB bankann.

Í Stundinni segir: „Níu milljarðar króna frá Samherja höfðu þá farið um reikninga Cape Cod FS og til að greiða laun sjómanna sem unnu hjá Samherja í Afríku, meðal annars í Namibíu.“

Skjáskot úr umfjöllun Stundarinnar.

Níu eða 9,2 milljarðar króna eru u.þ.b. 74-76 milljónir Bandaríkjadollara m.v. gengi gjaldmiðla í dag.

Hvað hefur verið fullyrt um töpuð störf í Namibíu?

Í yfirlýsingu Samherja segir: „Í morgun fullyrti Helgi Seljan í morgunútvarpi Rásar 2 að yfir „þúsund störf“ hefðu tapast í Walvis Bay í namibískum sjávarútvegi vegna Samherja,“ og sakar hann um að fara með „gróf ósannindi“ án skýringa.

Í Morgunþætti Rásar 2 þann 26. nóvember sl., sagði Helgi Seljan:
„Það voru þúsund manns í Walvis Bay, í kringum þúsund manns, sem misstu vinnuna þegar það var tekin ákvörðun um það að svipta eitt eða tvö fyrirtæki kvóta sem síðan rann til Samherja. Ég meina, við fengum að heyra af ömurlegum afleiðingum þess á þetta fólk, og hérna… Það er bara „fact“ að þetta fór, fyrir utan svo að það er allt sem bendir til þess að þar fyrir utan hafi svo náttúrulega, urðu engin ný störf til.“

Stundin hafði sömuleiðis fjallað um hvernig störf í Namibíu eigi að hafa horfið fyrir tilstilli Samherja þann 14. nóvember sl., og vísar í frétt Namibian Sun sama dag – tveimur dögum eftir fyrri umfjöllun Kveiks og fyrri skjalaleka Wikileaks vegna málsins.

Samherji segir hins vegar í yfirlýsingunnni: „Árið 2011 var úthlutunarreglum breytt á uppsjávartegundum í Namibíu. Ákveðið var að færa um 25% af aflaheimildum í uppsjávarfiski í hendur namibískra félaga og einstaklinga, aðallega frá fyrirtækjum í Suður-Afríku sem höfðu haft heimildirnar. Eftir úthlutun aflaheimilda leituðu ákveðnir aðilar í namibískum sjávarútvegi eftir samstarfi við félag tengt Samherja um veiðar á þeim aflaheimildum sem þeir höfðu yfir á að ráða. Önnur namibísk félög, sem fengu úthlutað aflaheimildum, sömdu við útgerðarfélög frá Kína, Hollandi og Rússlandi.

Alls voru 95% af veiddum afla í uppsjávarfiski fryst úti á sjó. Engin breyting varð á þessu milli áranna 2011 og 2012. Það má því segja að fjöldi starfa í veiðum og vinnslu á uppsjávarfiski í  namibískum sjávarútvegi hafi haldist óbreyttur þótt störfin hafi flust á milli fyrirtækja og skipa eftir að breytingar urðu á úthlutun heimilda.“

Helgi Seljan tjáir sig um yfirlýsingu Samherja

Helgi Seljan svaraði settum forstjóra Samherja, Björgólfi Jóhannssyni á facebook síðu sinni, og vísar í frétt The Namibian Sun frá 14. nóvember sl. (eftir að fyrri umfjöllun Kveiks birtist, tveimur dögum fyrr) auk fréttar suður-afríska miðilsins amaBhungane frá 14. maí 2018, til stuðnings fullyrðingu sinni um glötuð störf í Namibíu.

Hann sagði einnig á twitter, við frétt Viljans sem blaðamaður hans deildi þar, um ásakanir Samherja um ósannindi hans, í því samhengi:

„Nei, ég ræddi við fólkið sjálft. Meðal annars fyrrum hluthafa í þessu kompaníi. Fyrir svo utan að ég las fréttir af þessu öllu saman, sem ná aftur til 2014. Það er nokkuð auðvelt.“

Samherji svaraði facebook færslu Helga Seljan, og kallar The Namibian Sun, „götublað“:

„Fyrst skal áréttað að engin störf glötuðust í namibískum sjávarútvegi eftir breytingar á úthlutun aflaheimilda í hrossamakríl heldur fluttust störfin milli fyrirtækja og skipa. Þá er mikilvægt að halda því til haga að fyrirtækið Namsov var lengst af ekki í eigu Namibíumanna heldur var það í eigu suður-afrísku samsteypunnar Bidvest Group sem er metið á 8,4 milljarða dollara og er númer 1.062 á lista bandaríska tímaritsins Forbes yfir 2.000 stærstu fyrirtæki heims. Þetta eru semsagt störfin sem heimamenn áttu að hafa glatað, störf hjá suður-afrískri alþjóðasamsteypu. Það var ekki fyrr en á árinu 2018 sem Bidvest Group seldi Namsov til namibíska fyrirtækisins Tunacor.

Fram til ársins 2012 voru uppsjávarveiðar í Namibíu nær eingöngu í höndum tveggja fyrirtækja, Namsov og Erongo, sem voru lengst af bæði í eigu Suður-Afríkumanna. Hlutur heimamanna í namibískum sjávarútvegi jókst fyrst eftir að breytingar urðu á reglum um úthlutun á árunum 2011-2012 þegar aflaheimildir voru teknar frá gömlu suður-afrísku fyrirtækjunum. Það var eftir að félög tengd Samherja og fleiri erlend útgerðarfyrirtæki hófu starfsemi í namibískum sjávarútvegi.“

Hvað er til í því sem Samherji ber fyrir sig?

Ekki verður annað séð en að Bidvest Namibia sé í eigu hins suður-afríska félags Bidvest Group, sbr. lista Forbes yfir stærstu fyrirtæki heims, skv. heimasíðu samstæðunnar, þó það sé skráð í namibísku kauphöllinni.

Í umfjöllun suður-afríska miðilsins amaBhungane frá 14. maí 2018, sem Helgi Seljan vísar m.a. í, varðandi störfin sem áttu að hafa tapast, bæði í facebook færslu sinni og á twitter, segir:

„Bidvest Namibía, sem er skráð á staðnum (e. locally listed), þar sem 1.200 manns starfa í ýmsum dótturfélögum fiskiðnaðar, tilkynnti nýverið áætlanir um að hætta starfsemi eftir að Esau tók af þeim kvótann.“

Skjáskot úr umfjöllun amaBhungane.

Ekki var minnst á að fólk hafi misst vinnuna í fréttinni, þó fjöldi starfsmanna sem unnu fyrir ýmis félög Bidwest Namibia hafi verið nefndur.

Ekki er ljóst hvaða fólk, „kompaní“ og fyrrum hluthafa, Helgi var að meina í Twitter-færslunni sbr. að ofan – en hafi hann verið að meina Bidvest Namibia, þá hljóta það að hafa verið hlutafar í fyrirtæki sem er skráð undir suður-afrísku alþjóðlegu risafyrirtæki.

Hann gæti einnig hafa verið að meina fyrrum minnihlutaeigendur (erlendir að hluta) í Namsov, stærsta sjávarútvegsfyrirtæki Namibíu, sem óx upp úr samstarfi Sovétríkjanna og Namibíu. Þeir voru óánægðir þegar Bidwest Namibia, meirihlutaeigandi félagsins, með 69,55% hlut, keypti þá út á undirverði í júlí í fyrra, skv. fréttum Namibian um málið frá 11. maí og 10. júlí 2018.

Þetta gerðist eftir að sjávarútvegsráðherrann Bernard Esau, vann dómsmál sem suður-afrísku félögin tvö Bidvest Namibia og Erongo, höfðuðu gegn ákvörðun hans um breytingar á úthlutun aflaheimilda sem hann gerði árið 2011 – í samræmi við lög frá árinu 2000, um að rétthafar aflaheimilda í namibískum sjávarútvegi skuli vera namibískir. M.a. með þeim rökum að ekki sé hægt að koma í veg fyrir að erlendir aðilar geti verið eigendur að hlutabréfum í fyrirtæki á markaði. Nokkrum vikum síðar keypti namibíska fyrirtækið Tunacor, fyrirtækið Namsov af Bidwest Namibia, og komst Namsov þannig að fullu í hendur namibískra eigenda, sbr. umfjöllun Windhoek Observer frá 13. júlí 2018.

Það er erfitt að sjá hvernig það getur staðist að Samherji eigi sök á þessum breytingum sem urðu í júlí árið 2018 – eða hvernig störf eigi að hafa horfið við eigendaskiptin á Namsov, frá erlendum fyrirtækjum (í meirihluta), yfir til namibíska fyrirtækisins Tunacor, hvorttveggja Samherja óviðkomandi.

Ofangreindar skýringar Samherja á þessu virðast því standast.

Ásakanir vegna skorts á upplýsingagjöf

Kveikur reyndi að hafa samband við alla þá sem nefndir voru í umfjölluninni með ítrekuðum símtölum, skilaboðum og póstsendingum, skv. upplýsingum sem þátturinn gefur upp hér.

 Engin efnisleg svör hafi borist frá Samherja né einstaka starfsmönnum fyrirtækisins.

Helgi Seljan sendi Samherja boð um ca. klukkutíma viðtal þann 15. október sl. vegna „þróunaraðstoðar Íslendinga í sjávarútvegi og aukin umsvif íslenskra sjávarútvegsfyrirtækja erlendis“. Viðtalið skyldi fara fram einhverntíman eftir 25. október.

Þorsteinn Már Baldvinsson, þáverandi forstjóri Samherja svaraði:

„Þakka þér fyrir tölvupóstinn og erindið. Þín umfjöllun um málefni Samherja í gegn um tíðina hefur ekki verið á þann veg að ég sjái ástæðu til að fara í viðtal til þín.“

Helgi bað hann að hugsa málið.

Kveikur, ítrekar viðtalsbeiðnina með bréfi þann 25. október sl., eins og hún var fram sett í byrjun (með klukkutíma viðtali), nema nú með viðamiklar og alvarlegar ásakanir á hendur fyrirtækinu, á grundvelli rannsóknarvinnu fréttamanna þáttarins o.fl. Gefa sjö daga frest til að verða við beiðninni.

Þorsteinn Már Baldvinsson skrifar Rakeli Þorbergsdóttur, fréttastjóra RÚV þann 6. nóvember sl. og óskar eftir fundi með henni í London vegna þáttarins, og tíma til undirbúnings, í samræmi við þann tíma sem undirbúningur umfjöllunar þáttarins hafði.

Rakel svarar Þorsteini Má þann 7. nóvember sl. og hafnar boði um fund, og segir að fyrirhuguð umfjöllun Kveiks muni standa óhögguð. Ítrekar þó upphaflegu klukkustundar viðtalsbeiðni Kveiks á Íslandi og býður Samherja að senda gögn, þrátt fyrir að sjö daga svarfresturinn sé liðinn.

Í frekari samskiptum segir Rakel að það sé „fráleitt að halda því fram að fundarboð til London á bak við luktar dyr teljist eðlilegt eða gegnsætt ferli sem íslenskur fjölmiðill geti fallist á að taka þátt í.“ Þorsteinn Már útskýrði þá að hann hafi viljað bjóða Al Jazeera, sem hafði líka haft samband, að vera með á fundinum til að veita upplýsingarnar samtímis til beggja. Upplýsingagjöfin gæti jafnframt innihaldið viðkvæm málefni sem tengdust einstaklingum.

Rakel ítrekar þá upphaflega klukkutíma viðtalsbeiðni og beiðni um gögn, með frest til loka dags, 11. nóvember sl.

(Fréttin hefur verið uppfærð).