„Fimmhundruð milljarðar í umsjá fólks, þar sem ekkert eftirlit er, býr til slíkan freistnivanda, að það þarf óskaplega mikinn her af englum, til að standast þann vanda,“ var meðal þess sem Skafti Harðarson, formaður Félags skattgreiðenda, hafði að segja í Bítinu í morgun.
Á meðal þess sem var til umræðu, var salan á eignum Eignasafns Seðlabanka Íslands (ESÍ), en Skafti skrifaði grein undir yfirskriftinni „Mestu eignaflutningar sögunnar – í skjóli nætur og þagnarskyldu“ í Morgunblaðið fimmtudaginn 10. október sl. Þar gagnrýndi hann harðlega framkvæmd, eftirlit og upplýsingagjöf við söluna.
Vegleg þóknun fyrir að „labba á milli herbergja“ mánaðarlega
Tilefni greinarskrifanna hafi verið umræða um þóknun opinberra starfsmanna, en stjórnarformaður Lindarhvols ehf., starfsmaður fjármálaráðuneytisins, á skv. greininni að hafa þegið 450 þúsund krónur mánaðarlega, í þóknun fyrir að sitja klukkustundar langan fund einu sinni í mánuði. „Þetta fékk hann fyrir að labba yfir í fundarherbergið“, en tveir aðrir ríkisstarfsmenn, sem voru meðstjórnendur fengu 300 þúsund, að því er Skafti segir í viðtalinu og í greininni.
Saga málsins er að í kjölfar bankahrunsins hafi Seðlabanki Íslands fengið fjölda eigna og krafna í sína umsjá. Eignasafnið var metið á 500 milljarða króna árið 2009.
Stofnað hafi verið sérstakt eignarhaldsfélag, áðurnefnt ESÍ, utan um kröfur, veð og fullunustueignir Seðlabankans. Annað félag, Sölvhóll ehf., hafi átt að hámarka virði eignanna og selja þegar markaðsaðstæður leyfðu, með samþykki stjórnar ESÍ. En það var ekki eina félagið, Hildu ehf. fékk bankinn árið 2011 og að lokum var félagið Lindarhvoll ehf. stofnað árið 2016.
Ógagnsæis vandlega gætt þrátt fyrir loforð ríkisstjórnarinnar
„Undanfarin ár hafa einkum tvö félög, ESÍ og Lindarhvoll ehf., séð um umfangsmikla sölu á ríkiseignum. Báðir aðilar eiga það sammerkt að þess var vandlega gætt að ógagnsæi ríkti um starfsemi þeirra, þvert á stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar og raunar allra flokka á Alþingi. Staðreyndin er sú að örfáum einstaklingum, embættismönnum og vildarvinum, var falið að selja ríkiseigur fyrir hundruð milljarða króna án nokkurs eftirlits svo vitað sé. Sömu einstaklingar komu jafnvel við sögu í báðum þessum félögum. Ættu skattgreiðendur að óttast eitthvað, er það ógagnsæ meðferð á eigum ríkisins.“
Tveimur árum eftir slit ESÍ hafi nær engar upplýsingar fengist um afdrif þessara eigna, kostnað og annað. Seðlabankinn undir forystu Más Guðmundssonar, hafi lofað skýrslu sem koma átti út í fyrra. „Ekkert bólar á henni en líklega munu fyrrverandi stjórnendur ESÍ, sem jafnframt sáu um að slíta félaginu, skrifa hana sjálfir og svara fáu.“
Stjórnendur óskuðu eftir að verða ósnertanlegir
Skafti sagði jafnframt að stjórnendur ESÍ hafi óskað eftir að vera „tryggt skaðleysi vegna starfa sinna“, og frumvarp þess efnis hafi verið lagt fram á Alþingi, en því hafi verið hafnað af ráðherra. Óljóst sé þó hvort Seðlabankinn hafi sjálfur ábyrgst þá umfram hefðbundna vinnuveitendaábyrgð. Þingmenn hafi leitað eftir upplýsingum um starfsemi ESÍ, en verið svarað með „útúrsnúningum og vísunum í bankaleynd“, þó að um hefðbundin einkahlutafélög hafi verið að ræða, sjá svör hér og hér.
ESÍ og Hilda ehf. hafi fengið undanþágu frá upplýsingalögum með bréfi frá forsætisráðuneytinu í árslok 2015. Undir Hildu hafi verið færðar margar eignir Dróma, þ.á m. 700 fasteignir. „Þagnarskyldunni hefur óspart verið beitt þegar óskað hefur verið sjálfsagðra svara um sölu ríkiseigna,“ segir Skafti í greininni.
Fjármálaráðherra og fyrrverandi seðlabankastjóri beri ábyrgðina
Með því að stofna einkahlutafélög til að annast verkefnin, í stað þess að sinna þeim í ráðuneytinu, hafi verið hægt að komast hjá lögum og reglum um upplýsingagjöf, en félögin heyri ekki undir „Opna reikninga“ ríkisins.
Vísbendingar eru um tap ríkisins á sölu eigna, að útboðsreglur hafi ekki verið virtar, synjað hafi verið upplýsingagjöf um aðgang að tilboðum eftir að tilboðsferli lauk, nöfnum bjóðenda og upplýsingum um fjölda stjórnarfunda árlega. Jafnframt hafi stjórn Lindarhvols ehf. farið fram á að kvörtunarbréfi vegna starfa félagsins yrði eytt úr málaskrá fjármálaráðuneytisins, en Viðskiptablaðið hefur fjallað um sum þessi atriði.
Ríkisendurskoðandi á nú þegar að hafa skrifað og afhent greinargerð um Lindarhvol ehf. sumarið 2018, skv. Morgunblaðsgreininni, en hún hafi „einhverra hluta vegna“ enn ekki verið gerð opinber. Frekari skýrslur séu enn í vinnslu hjá Ríkisendurskoðun. Spurður í Bítinu í morgun, hvar ábyrgðin á framkvæmd og eftirliti með þessum verkefnum liggi, svaraði Skafti að hún sé hjá fyrrverandi seðlabankastjóra, og núverandi fjármálaráðherra. Hann vonaðist til þess að nýr seðlabankastjóri myndi hjálpa til við að veita nánari upplýsingar, „Nýir vendir sópa best.“