Fyrrverandi formaður sjálfstæðiskvennafélagsins Hvatar segir að nálgun Samfylkingarinnar gagnvart þolendum kynferðislegrar áreitni fari eftir því hver meintur gerandi er. Jón sé ekki sama og séra Jón hjá flokknum og hún undrast þögn kvenna í flokknum vegna nýjustu tíðinda. Kynferðisleg áreitni sé þannig skoðuð innan Samfylkingarinnar með flokkspólitískum gleraugum.
Undanfarið hefur verið upplýst um mál tveggja þingmanna Samfylkingarinnar, annars núverandi þingmanns og hins fyrrverandi, sem hafa komið á borð Samfylkingarinnar vegna kvartana kvenna yfir áreitni og óviðeigandi framgöngu.
Mál Helga Hjörvar voru rædd af þáverandi forystu flokksins og trúnaðarnefnd flokksins áminnti Ágúst Ólaf Ágústsson vegna ásakana, sem hann hefur gengist við, um kynferðislega áreitni í garð blaðakonu Kjarnans.
Sirrý Hallgrímsdóttir ráðgjafi, og fv. formaður Hvatar og aðstoðarmaður menntamálaráðherra í ráðherratíð Illuga Gunnarssonar, undrast það hvernig Samfylkingin tekur á málum eftir því hver á í hlut.
„Ímyndum okkur að það hefði verið þingmaður Sjálfstæðisflokksins fremur en þingmaður Samfylkingarinnar sem hefði verið staðinn að kynferðislegri áreitni og því að niðurlægja konu sem streittist á móti. Hvernig hefðu þingmenn Samfylkingarinnar brugðist við, með því að læka ósönnu yfirlýsinguna með hjörtum? Held ekki. Ætli þeir hefðu ekki farið upp í þinginu og krafist afsagnar, ætli „RÚV“ hefði ekki kallað til lærða óháða álitsgjafa sem rætt hefðu kynbundið ofbeldi í stjórnmálum, ætli þingmenn Samfó hefðu ekki jafnvel talið að siðanefnd þingsins þyrfti að fjalla um málið,“ segir Sirrý í pistli sem hún skrifar í Fréttablaðið.
Formaður siðanefndarinnar setti hjarta við yfirlýsingu sem var ekki í samræmi við sannleikann
Sirrý vísar þarna m.a. til þess, sem upplýst hefur verið, að Guðrún Ögmundsdóttir, formaður trúnaðarnefndarinnar, hafi sett hjarta við yfirlýsingu Ágústs Ólafs þar sem hann skýrði frá niðurstöðu nefndarinnar og sagðist hafa óskað eftir leyfi sem þingmaður. Samt vissi hún þá að yfirlýsing þingmannsins var ekki í samræmi við niðurstöðu nefndarinnar sem hún stýrði sjálf.

Guðrún viðurkennir í samtali við Morgunblaðið í gær að það hafi verið mistök af sinni hálfu að gera þetta, hún hefði sett hjarta við færsluna í fljótfærni.
„En nei, Samfylkingin lítur svo á að Jón sé ekki sama og séra Jón.
Blæbrigðamunur og ólík upplifun, tveggja mánaða frí frá þinginu og svo áfram gakk eins og ekkert hafi í skorist,“ segir Sirrý Hallgrímsdóttir.

„Það verður áhugavert að fylgjast með Samfylkingunni ræða stöðu kvenna og viðbrögð við kynferðislegu ofbeldi. Það gæti reynst flokknum snúið.
En hvar eru konurnar í þessum flokki?,“ segir hún í pistli sínum í Fréttablaðinu.
Þess má geta, að Viljinn hefur fengið margar ábendingar frá Samfylkingarfólki um að Heiða Björg Hilmisdóttir, borgarfulltrúi og varaformaður Samfylkingarinnar og áberandi forystukona í metoo hreyfingunni svonefndu, hafi ásamt eiginmanni sínum, Hrannari B. Arnarsyni fv. framkvæmdastjóra Samfylkingarinnar, gengið hart fram innan flokksins í því að verja Helga Hjörvar gegn ásökunum í hans garð.
Þau hjónin hafa um árabil verið miklir vinir og samherjar Helga í pólitík.