Hverjir ráðleggja Donald Trump í loftslagsmálum?

Donald J. Trump er með teymi virtra sérfræðinga í loftslagsmálum.

Donald Trump Bandaríkjaforseti er með fyrsta flokks teymi af ráðgjöfum í loftslagsmálum, miðað við loftslagsráðgjafa bandaríska þingsins, bendir Peter J. Ferrera á í grein í Washington Times.

Hann segir Demókrata notast við Gretu Thunberg, gagnfræðiskólanema frá Evrópu og þingkonuna Alexandriu Ocasio-Cortez, fyrrum barþjón frá Bronx, til að ráðleggja sér vegna Græna nýja samkomulagsins (e. Green New Deal). Því sé ekki að undra að loftslagsaktívistar forðist að taka þátt í kappræðum.

Þingmenn Demókrata, ásamt ýmsum fleirum, hafa gagnrýnt ákvörðun Trump um að vilja draga Bandaríkin út úr Parísarsamkomulaginu, eins og þegar hefur verið fjallað um í fjölmiðlum úti um allan heim. Bandaríkin hafa þó þegar náð að halda kolefnislosun niðri með sínum eigin markmiðum og notkun á jarðgasi, og stefna á að minnka hana um ca. fimmtung fyrir árið 2030. En skoðum þá hverjir skipa ráðgjafateymi Trump í loftslagsmálum.

Reynsluboltar í loftslags-, umhverfis- og veðurfræðum

William Happer.

Á meðal loftslagssérfræðinga Trump eru Will Happer, fyrrum Cyrus Fogg Bracket prófessor emerítus við Princeton-háskóla, sem nýlega starfaði í þjóðaröryggisráði Bandaríkjanna. Happer hafi lengi verið meðlimur JASON, samtaka vísindamanna sem veita stjórnvöldum ráðgjöf, og forstjóri vísindaskrifstofu orkumálaráðuneytisins. Líklegt þykir að hann hafi valið suma þá sérfræðinga sem á eftir eru taldir.

Happer hefur lengi haldið því fram að losun á koldíoxíði (CO2) sé góð fyrir umhverfið; reyndar nauðsynlegt lífinu á jörðinni. CO2 nota plöntur, sem eru grundvöllur allrar fæðukeðjunnar, við ljóstillífun. Án plantna er ekkert líf á jörðinni. Vaxandi magn CO2 í andrúmsloftinu hefur valdið grænkun jarðarinnar með því að stuðla að hraðari vexti plantna eins og gervitunglamyndir hafa sýnt og vísindamenn hafa mælt á jörðu niðri.

Richard Lindzen.

Richard Lindzen er áhrifamikill eðlisfræðingur og sérfræðingur í loftslagi sem er jafnframt ráðgjafi Donald Trump. Hann var lengi Alfred P. Sloan prófessor í veðurfræði hjá Massachusetts-tækniháskólanum (MIT) og einn af stofnendum Loftslagsnefndar Sameinuðu Þjóðanna (IPCC). Hann er höfundur 230 rýndra vísindagreina frá árinu 1965 til ársins 2008.

Roy Spencer.

Enn einn þekktur ráðgjafi Trump er Roy Spencer, sem leiðir rannsóknarhóp vísindamanna við Háskólann í Huntsville, Alabama. Hann er hópstjóri fyrir þróaðar örbylgjumælingar (AMSR-E) með Aqua gervitungli Bandarísku geimferðastofnunarinnar (NASA). Spencer hefur einnig starfað sem reynslumikill vísindamaður í loftslagsrannsóknum fyrir Marshall geimflugsmiðstöð NASA. Hann hefur hlotið sérstaka viðurkenningu frá Bandarísku veðurfræðistofnuninni fyrir þróun gervitungla eftirlitskerfis sem er notað til að mæla hitastig í lofthjúpnum.

Patrick Michaels.

Annar sérfræðingur Trump er Patrick Michaels, loftslagssérfræðingur sem áður starfaði sem prófessor í umhverfisfræðum við Háskólann í Virginíu. Michaels er einnig fyrrum forseti Samtaka loftslagssérfræðinga í Bandaríkunum og fyrrum heiðursmeðlimur í umhverfisfræðum hjá Cato-stofnuninni.

Stofnaði Gervitunglamiðstöð Veðurfræðistofnunar Bandaríkjanna

S. Fred Singer.

En virtasti sérfræðingur í ráðgjafateymi forsetans er S. Fred Singer, upphaflega austurrískur loftslags-eðlisfræðingur og prófessor emerítus í umhverfisfræðum við Háskólann í Virginíu. Singer setti á stofn Gervitunglamiðstöð Bandarísku veðufræðistofnunarinnar árið 1962 og hefur gefið út fjölda ritrýndra visindagreina og bóka um ýmisleg mikilvæg vísindaleg málefni. Síðastliðna áratugi hefur hann lagt sérstaka áherslu á mál sem tengjast loftslagsbreytingum.

Finna má efni og myndbönd eftir þessa sérfræðinga sem aðstoða Bandaríkjaforseta í ákvörðunum í loftslagsmálum víða í bókasöfnum og á internetinu, þar á meðal „Endurskoðun loftslagsbreytinga (e. Climate Change Reconsidered)“ sem er ritrýnd sería og inniheldur þúsundir greina sem ritaðar eru af vísindamönnum, tilvísanir í þúsundir ritrýndra annarra vísindagreina og hlutlaus gagnasöfn.

Skyldi því engan undra að loftslagsæsingamenn geri sér það ljóst að þeir geta ekki varið opinberlega móðursýkisleg sjónarmið sín um loftslagsmálin. Greta Thunberg, Alexandria Ocasio-Cortez, Al Gore og fleiri slíkir myndu auðveldlega hitta þar fyrir ofjarla sína.