Evrópusambandið (ESB) eyðir um 8 þúsund milljörum króna árlega í niðurgreiðslur á landbúnaði – en stór hluti fjárins fer í vasa ólígarka, stjórnmálamanna og fjármögnun á spillingu. Á þetta bendir Björn Bjarnason á bloggsíðu sinni í dag, og vísar þar í umfjöllun New York Times frá í gær um málið.
Í henni segir að ESB, sem samanstendur af 28 aðildarríkjum, greiði styrkina til að styðja við landbúnað og dreifbýli um alla Evrópu. En t.a.m. í Ungverjalandi og víða í Mið- og Austur-Evrópu rennur meirihluti styrkjanna í vasa valdamikilla og vel tengdra aðila. Forseti Ungverjalands, Viktor Orbàn og vinir hans hafa náð undir sig miklu landi, þar sem þeir hampa velunnurum með störfum og útiloka gagnrýnendur. Svipaða sögu er að segja af forsætisráðherra Tékklands, Andrej Babis, sem rakaði til sín milljörðum króna í styrkjum í fyrra. Niðurgreiðslurnar hafa einnig valdið „mafíu“ líkum uppgripum á landi í Búlgaríu og Slóvakíu.
Styrkjakerfið fjármagnar andlýðræðisleg öfl óbeint
Landbúnaðarstyrkjakerfi ESB var eitt af þeim verkfærum sem notast var við til að forma sambandið, er nú misnotað af andlýðræðislegum öflum sem ógna samstarfinu innan frá. Popúlistar sem stjórna mið- og austurhlutanum, eru stórtækir í styrkjakerfinu sem er fjármagnað af evrópskum skattgreiðendum, og koma sér hjá upplýsingagjöf um það hvað verður um peningana. Talið er að um 80% af niðurgreiðslunum renni til 20% styrkþega.
New York Times lagðist í rannsóknarvinnu um málið og skoðaði níu lönd sérstaklega á þessu ári. Niðurstaðan er niðurgreiðslukerfi sem virðist vera vísvitandi ógagnsætt, grefur alvarlega undan markmiðum ESB í umhverfismálum og er fullt af sjálftöku og spillingu. Talið er að yfirvöld í Brussel þori ekki að snerta á málinu, þar sem styrkjakerfið, eitt það stærsta í heimi, þykir mikilvægt til að halda ESB samstarfinu gangandi – og er stærsti útgjaldaliður þess.
Leiðtogar sambandsins þora ekki að hrófla við kerfinu
Landbúnaðarstyrkirnir eru því ekki til endurskoðunar á fjárlögum ESB að þessu sinni og engin áhersla er lögð á að uppræta spillingu eða herða eftirlit. Þess í stað stendur til að veita leiðtogum ríkjanna enn meira frelsi í að ákveða hvernig þeir verja styrkjunum – þrátt fyrir andmæli innri endurskoðenda sambandsins. Einungis sum aðildarríkin veita einhverjar upplýsingar um þiggjendur styrkjanna, en stærstu styrkþegarnir fela sig á bakvið flókið eignarhald á jörðum. ESB heldur yfir þetta miðlæga skrá – og hefur neitað að afhenda The Times, upplýsingar sem blaðið óskaði eftir, með þeirri skýringu að „það sé svo erfitt að hlaða skránni niður“.
En kerfið lekur stöðugt, og blaðamenn og uppljóstrarar hafa safnað gögnum og upplýsingum sem þykja sýna fram á að ESB sé óbeint að moka undir óligarka og popúlíska stjórnmálamenn, sem grafa undan sambandinu sjálfu og lýðræðinu með. Gagnrýnendum þykir kerfið vera byrjað að líkjast æ meira kommúnismanum – en einn þeirra er hagfræðingur í Ungverjalandi sem hvarf úr opinberri umræðu eftir að hafa reynt að benda á þetta. Aðrir hafa sagt að ESB hafi ekki gert sér grein fyrir möguleikunum á nepótisma og spillingu í styrkjakerfinu, þegar Austur-Evrópa mætti til leiks, með meirihluta jarðanna enn í ríkiseigu eftir áratugi af sósíalisma.