Hvernig tölum við um annað fólk?

Karólína Einarsdóttir.

„Klaustursmálið svokallaða hefur virkilega orðið að miklu umtalsefni í þjóðfélaginu og fólk er duglegt að hafa skoðanir á því, þar á meðal ég. Við erum svo dugleg að benda á aðra og dæma þá en ég velti því fyrir mér hvort við ættum ekki líka að líta í eigin barm og fara í smá naflaskoðun,“ segir Karólína Einarsdóttir doktorsnemi í vatnalíffræði við Háskólann í Uppsölum í Svíþjóð.

Karólína hefur verið virk í stjórnmálum um árabil. Hún starfaði lengi innan vébanda Vinstri grænna, en var síðast í framboði fyrir Alþýðufylkinguna. Hún vill að við Íslendingar tökum okkur á, þegar kemur að umræðum fólks um náungann.

„Hvernig tölum við um annað fólk, hvaða orð notum við? Getum við bætt okkar orðfæri? Það er manninum eðlislægt að hafa skoðanir á öðru fólki og við tölum oft um annað fólk við aðra. Hvernig gerum við það? Tölum við bara illa um það? Allir hafa sína galla, en líka kosti (sem við tölum sjaldan um). Við festumst oft í neikvæðni og löstum aðra.

Það er kannski kominn tími til að við reynum að vanda orðfæri okkar betur. Og oft er gott að tala líka um mannkosti fólks. Enginn er fullkominn. Ég vil hvetja fólk að æfa sig að tala betur um fólk og á jákvæðari nótum. Það ætla ég að gera að minnsta kosti. Aðventan er besti tími ársins fyrir svoleiðis æfingar enda jólin tími kærleiks,“ segir Karólína.